Dienstag, 27. Mai 2008

Hengdu þinn haus Tom Dooley

Þennan frábæra texta sem Óðinn Valdimarsson heitinn söng svo eftirminnilega á plötunni Er völlur grær er að finna á síðunni heimsnet.is/sol:

Útlaginn


Upp undir Eiríksjökli

á ég í helli skjól.

Mundi þar mörgum kólna,

mosa er þakið ból.


Útlagi einn í leyni

alltaf má gæta sín,

bjargast sem best í felum,

breiða’ yfir sporin mín.


Ungur ég fór til fjalla,

flúði úr sárri nauð.

Úr hreppstjórans búi hafði

ég hungraður stolið sauð.


En hann átti hýra dóttur

sem horfði ég tíðum á.

Nú fæ ég aldrei aftur

ástina mína’ að sjá.


Stundum mig dreymir drauma,

dapurt er líf mitt þá.

Aldrei mun lítill lófi

leggjast á þreytta brá.


Ef til vill einhvern tíma

áttu hér sporin þín;

grafðu í grænni lautu

gulnuðu beinin mín.


Jón Sigurðsson


Hlusta má á lagið í erlendri útgáfu á YouTube. Gott væri ef einhver tæki sig til og snaraði viðlaginu yfir á íslensku.

Hang down your head, Tom Dooley
Hang down your head and cry
Hang down your head, Tom Dooley
Poor boy, you're bound to die

Hengdu þinn haus Tom Dooley,
hengdu þinn haus í kvöld.
Hengdu þinn haus Tom Dooley,
drengur þú munt deyja ...

nei þetta virkaði ekki alveg...

Samstag, 19. April 2008

Smjörklípa

Smjörklípur, smjörklípuaðferð ... er það eitthvað ofaná brauð?

Nei, ofaná kött reyndar. Hugtakið smjörklípa í merkingunni að ófrægja andstæðinga sína til þess að komast hjá því að takast á um málefni, er víst komið frá Davíð Oddssyni og móður hans eða frænku:
"[...] Davíð hafði í sjónvarpsviðtali lýst því að móðir hans hefði notað þá aðferð þegar kisan á heimilinu lét ófriðlega að að klína á hana smjörklípu og hafi kötturinn þá orðið svo upptekinn að hreinsa sig að ekki hefði annað komist að hjá honum og friður komist á meðan á hreinsuninni stóð sem gat tekið býsna langan tíma. Þetta notaði Davíð svo í yfirfærðri merkingu um það að þegar menn lentu í vondri stöðu þá klíndu þeir einhverju á andstæðinginn til að gera hann upptekinn við að verja sig."

(Gunnlaugur.annall.is útskýrir orðið smjörklípa á vefsíðunni GudniMar.annall.is 7. nóvember 2007.)
Samkvæmt bloggsíðu Ágústs Ólafar alþingismanns mun Davíð við eitthvert tilefnið hafa upplýst þjóðina "um að hann hefði haft sérstakt dálæti á [smjörklípuaðferðinni] í forsætisráðherratíð sinni. Þá dunda menn sér við eitthvað annað og umræðan fer aðeins af sporinu."


Deglupenninn Sigríður Dögg lýsti því 23. október 2006, stuttu eftir viðtalið, hvernig Davíð kynnti hugtakið til sögu:
"Þann 3. september síðastliðinn lýsti fyrrverandi stjórnmálaleiðtogi nokkur stoltur í bragði fyrir þáttastjórnanda aðferð sem hann hafði beitt í gegnum tíðina til að leika á pólitíska andstæðinga sína. Aðferðina lærði fyrrverandi stjórnmálaleiðtoginn af frænku sinni sem hafði tjáð honum hvernig losna ætti við læti í kettinum. Lét hún þá smjörklípu í feld kattarins sem beindi eftir það allri athygli sinni að því að sleikja smjörið úr feldinum. Þessari "smjörklípuaðferð" sagðist fyrrverandi stjórnmálaleiðtoginn hafa beitt til að beina athygli pólitískra andstæðinga sinna frá hverju því sem þurfti það sinnið."


Í Fréttablaðinu 8 febrúar 2007 gerir Þorvaldur Gylfason prófessor því hins vegar skóna að í raun sé aðeins um heimfæringu Davíðs að ræða á hugtakinu smear tactics.
"Það mun þó vera einsdæmi í stjórnmálasögu heimsins, að stjórnmálaforingi, sem beitir slíkum ,,smear tactics“, hreyki sér af því háttalagi á opinberum vettvangi og leggi jafnvel á sig að þýða orðasambandið yfir á móðurmál sitt (smjörklípuaðferð). Það má hann eiga, að þýðingin er góð og lýsandi."


Nokkuð er til í því en skv. ensku Wikipedia-greininni um smjörklípuherferðir (í dag) eru smjörklípur
"effective in diverting attention away from the matter in question and onto the individual or group. The target of the smear is typically forced to defend his reputation rather than focus on the previous issue."

Þjóðverjar segja gjarnan Schmutzkampagne, en bæði í ensku og þýsku er fremur átt við að smyrja skít heldur en smjöri (og ég er ekki viss um að kettir séu hluti af myndmálinu í ensku og þýsku myndlíkingunum).

Á hinni íslensku Wikipedíu fær smjörklípuaðferðin stutta umfjöllun og segir þar að hugtakið sé tengd málshættinum  „svo skal böl bæta að benda á annað verra“. Taka má undir það.

Nú þarf bara einhver að þýða enska hugtakið FUD campaign (fear, uncertainty, doubt), aðferð sem notuð er til þess að afvegleiða og hræða fólk með hálfsannleik og illa ígrunduðum spádómum.

Mittwoch, 2. April 2008

það er til dæmis meðal annars

-- t.d. --
e.g.
abbr. exempli gratia (for example)

-- m.a. --
inter alia
among other things
- i.a. þýðir hins vegar in absentia
(while or although not present)

-- þ.e. --
i.e.
abbr. id est (that is)

Dienstag, 1. April 2008

Samanber, sbr. þó

Nokkur atriði sem gott væri að halda til haga varðand þýðingar yfir á ensku.

Þýða má "samanber 5. mgr." sem "see paragraph 5" eða "cf. paragraph 5", nema inntak þess sem fram kemur í 5. mgr. sé látið ráða ferð, en þá má nota:
- as mentioned / defined / categorized / amended by / determined by paragraph 5.

Öðru máli gegnir um "samanber þó 5. mgr.", sem þýðist annað hvort þýðist sem "subject to" ef um skilyrði er að ræða eða "without prejudice to" / "notwithstanding".

---

"... sem um ræðir" er þýtt sem "concerned" þegar verið er að vísa til einhvers sem áður hefur verið nefnt.

Þegar hins vegar tilvísunarandlagið er nefnt strax á eftir, "sem um ræðir í X", er það þýtt sem "referred to in".

Öllu vandmeðfarnara er að þýða "líkt og / eins og um væri að ræða" á fallegan hátt yfir í ensku, og helst þarf að tengja hinu ensku þýðingu við það sem verið er að líkja e-u saman við:
"as if they were";
"like it was";
"as if he is".

Sonntag, 2. März 2008

Discretionary assessment

Þurfti aðeins að hugsa um hugtakið "discretionary assessment" og þýðingu þess. Venjulega þegar eitthvað er based on discretionary assessment þá er orðið "geðþótti" tekið fram. Geðþótti þykir mér full gildishlaðið stundum og þá má í staðinn nota "frjálst mat" þegar við á.


Eitt sem ég gleymi alltaf er hvernig greina skuli á milli orðanna coordination og harmonisation þegar textar með báðum þessum orðum eru þýddir.

coordination - samræming

harmonisation - samstilling

Montag, 14. Januar 2008

Gera skör og reka að e-u

Það hefur verið minn málskilningur lengi að hægt sé að gera skör að e-u, í þeim skilningi að leitast við að eitthvað sé gert.

Í orðabókum er þó lítið að finna þessu til staðfestingar, en það næsta sem kemst þessu er:
"gera skör sína eftir e-m skeyta um e-n, greiða götu e-s, virða e-n"
Misskilningurinn virðist fólginn í því að rugla saman hugtakinu "gera gangskör að e-u" og gera reka að e-u.

Hins vegar má láta til skara skríða, (e. take action) vegna einhvers, en það verður að teljast gildishlaðnara og sterkar til orða tekið.