Í 44. gr. höfundalaga nr. 73/1972 kemur fram að þegar verk hefur verið birt
án þess að höfundur hafi verið nafngreindur, haldist höfundaréttur að verkinu
uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir birtingu þess. Verndartími
þýðingarinnar sem hér fer á eftir, sem gefin var út árið 1937 og hvers höfundur
hefur ekki verið nafngreindur, er samkvæmt því liðinn frá og með 1. janúar
2008.
Þess má geta að nokkuð er liðið síðan verndartímabil frumútgáfu verksins, Alice's Adventures in Wonderland eftir Lewis
Carroll (Charles Lutwidge Dodgson) ásamt myndskreytingum John Tenniel, leið
sitt skeið, en verkið kom út á frummálinu árið 1865. Söguna má nálgast á vef Project Gutenberg
án endurgjalds á frummálinu (ensku), en einnig á ítölsku og þýsku.
Hér er um að ræða fyrstu íslensku þýðingu sögunnar, frá árinu 1937. Sú
þýðing var endurútgefin árið 1954 með endurbótum Halldórs G. Ólafssonar. Aðrar
íslenskar þýðingar á verkinu (sumar styttar) sem komið hafa út eru sem hér
segir: Þýðing Guðjóns Guðjónssonar 1957, þýðing Ingunnar E. Thorarensen
1984, þýðing Þórarins Eldjárns 1996, þýðing Sigrúnar Árnadóttur 1999,
þýðing Jóns Orra (dulnefni) 2007 og þýðing Þóris S. Guðbergssonar 2007.
Með birtingu textans sem hér
fer á eftir er enginn réttur áskilinn.
Lísa litla í Undralandi
eftir Lewis Carrol
með myndskreytingum eftir John Tenniel
í íslenskri
þýðingu frá 1937 (þýðandi ókunnur)
[Ýmsum pörtum úr upphaflega verkinu er sleppt í
þýðingunni, þ.á m. mörgum vísum. Þá var ekki allar myndskreytingar Tenniels að
finna í þýðingunni en þeim sem vantaði hefur verið bætt við hér.]
Efnisyfirlit
1. þáttur Kanínuholan.
2. þáttur Í tárapollinum.
3. þáttur Kapphlaup
dýranna.
4. þáttur Sendiför eðlunnar.
5. þáttur Heilræði kálormsins.
6. þáttur Piparinn og svínið.
7. þáttur Kátbrosleg kaffidrykkja.
8. þáttur Hjá
drottningunni.
9. þáttur Skjaldbökubróðirinn raunamæddi.
10. þáttur Dans krabbanna.
11. þáttur Hver stal kökunum?
12. þáttur Lísa sem vitni.
Sögulok.
1. þáttur.
Kanínuholan.
Lísa litla hafði ekkert fyrir stafni og hún var orðin leið á að sitja á
bekknum við hlið systur sinnar. Öðru hvoru gaut hún augunum til bókarinnar, sem
systir hennar var að lesa. Í bókinni voru engar myndir. „Og hvað er gaman að
bókum, sem engar myndir eru í“, hugsaði Lísa.
Það var sólbjartur sumardagur og hitamollan gerði Lísu ákaflega lata. Hún
var að hugsa um, hvort hún ætti að standa á fætur og búa til fíflafesti, en hún
var svo löt, að hún nennti varla að tína fíflana. Skyndilega kom hún auga á
hvíta kanínu, sem hljóp fram hjá.
Þetta var nú ekkert sérstaklega undarlegt og Lísa varð ekkert afskaplega
hissa, þegar kanínan sagði: „Hamingjan góða! Hamingjan góða! Ég er að verða of
seinn“. En nú tók kanínan úr
upp úr vestisvasanum, leit á það og flýtti sér burtu. Og þá féll Lísu litlu
allur ketill í eld. Hún spratt á fætur, höggdofa af undrun, því að hún hafði
aldrei fyrr á æfi sinni séð kanínu í vesti og með vasaúr. Hún hljóp á eftir
kanínunni yfir akurinn og sá hana skjótast inn í stóra kanínuholu.
Í sömu andrá var Lísa litla komin inn í holuna á eftir kanínunni, án þess
að hugsa hið minnsta um það, hvernig hún kæmist út aftur.
Holan var fremst eins og lítil göng, en snardýpkaði svo, og áður en Lísa
gat áttað sig leið hún í loftinu niður í djúpan brunn.
Brunnurinn var annaðhvort gríðarlega djúpur eða þá að Lísa litla leið hægt
áfram, því að hún hafði nógan tíma til að líta í kringum sig. Fyrst reyndi hún
að horfa niður í botninn, til þess að sjá hvað þar tæki við. En ekki var hægt
að sjá þangað fyrir myrkri. Svo fór hún að virða fyrir sér veggina og tók nú
eftir því, að á þeim voru bæði hillur og bókaskápar. Hér og þar voru líka
landakort og skemmtilegar dýramyndir.
Um leið og hún fór fram hjá einni hillunni, náði hún í krukku. Á henni stóð
„GLÓALDINMAUK“, en hún reyndist því miður vera tóm. Lísa þorði ekki að sleppa
krukkunni, því að hún hélt, að hún gæti meitt einhvern fyrir neðan sig. En
loksins tókst henni að koma krukkunni aftur upp á eina hilluna.
“Nú er ég orðin svo vön að hrapa að ekkert gerir til, þó að ég velti
einhvern tíma niður stigann heima“, hugsaði Lísa. „Ég myndi meira að segja ekki
gráta, þótt ég dytti ofan af þaki“.
Niður, niður, niður! Ætlaði þetta aldrei að taka enda? „Hvað skyldi ég hafa
hrapað marga kílómetra?“ sagði hún hátt. „Ég hlýt að vera einhverstaðar inni í
miðri jörðinni. Ætli ég fari alveg gegnum jörðina og komi út hinum megin? Það
verður skrítið að sjá fólkið þar; það gengur víst á höfðinu. Ég verð að spyrja
hvað landið heiti sem ég kem til. Ég ætla að segja: „Afsakið, frú, er þetta
Nýja-Sjáland eða Ástralía?“ En þá halda menn að ég sé einhver dauðans bjáni.
Það er víst bezt að spyrja ekki, enda sé ég kannske nafnið skrifað
einhversstaðar“.
Niður, niður, niður. Lísa gat ekkert aðhafst og fór því aftur að spjalla
við sjálfa sig. „Dína saknar mín víst í kvöld. (Dína var kötturinn.) Ég vona,
að mjólkurskálin hennar gleymist ekki um kaffileytið. Góða Dína mín! Ég vildi,
að þú værir með mér núna. Ég býst nú reyndar varla við að það séu mýs í loftinu
hérna, en þú gætir kannske náð í leðurblöku. Éta kettir annars leðurblökur?“ —
Nú var Lísa orðin syfjuð og fór að endurtaka þetta í sífellu: „Éta kettir
leðurblökur? — éta kettir leðurblökur?“ En stundum sagði hún: „Éta leðurblökur
ketti? — éta leðurblökur ketti?“ Hún gat hvorugri spurningunni svarað og það
stóð því á sama hvernig þær hljóðuðu. Nú féll á hana mók. Hana fór að dreyma,
að hún væri á gangi með Dínu og segði við hana: „Segðu mér nú satt, Dína mín,
hefirðu nokkurn tíma étið leðurblöku“. — Búmp, búmp, búmp! Lísa litla féll
allt í einu til jarðar og lenti í hrúgu af þurrum laufblöðum.
Hún stóð strax á fætur, því að hún hafði ekkert meitt sig. Fyrir framan
hana voru önnur löng göng og þar sá hún hvítu kanínuna á hraðri ferð. Lísa
mátti engan tíma missa. Hún flýtti sér eins og hún gat á eftir kanínunni. Hún
hafði rétt að segja náð henni, þegar kanínan beygði fyrir horn og hvarf. Það
síðasta, sem til hennar heyrðist, var það, að hún var að fárast yfir því, hvað
framorðið væri.
Lísa litla sá nú, að hún var stödd í lágri forstofu, sem var uppljómuð með
ótal lömpum.
Það voru fjölda margar dyr á forstofunni, en þær voru allar læstar. Lísa
gekk fram og aftur um gólfið og reyndi að opna dyrnar; hún var nú orðin döpur í
bragði og vissi ekki, hvort hún myndi nokkurn tíma komast út aftur.
Allt í einu sá hún lítið, þrífætt glerborð og á því lá ofurlítill lykill úr
skíru gulli. Lísa vonaði að lykillinn myndi ganga að einhverri hurðinni, en hún varð fyrir
vonbrigðum, því að skráargötin reyndust vera of stór eða of lítil. Þegar Lísa
hafði reynt lykilinn í öllum skránum kom hún auga á veggtjald, sem hún hafði
ekki tekið eftir fyrr. Bak við það voru litlar dyr, aðeins 15 þumlungar að
stærð. Henni til mikillar gleði gekk gull-lykillinn að þessum dyrum.
Hún opnaði dyrnar og sá þá að bak við þær var lítill gangur, ekki mikið
stærri en rottuhola. Lísa lagðist á hnén og horfði í gegnum ganginn. Þegar
honum lauk tók við dásamlegur blómagarður. Hún hafði aldrei á ævi sinni séð
svona fallegan garð. En hvað hana langaði til að komast út úr forstofunni og
ganga um í garðinum á milli rósabeða og svalandi gosbrunna. En hún gat ekki
einu sinni komið höfðinu í gegnum dyrnar. „Og þó að ég gæti það, þá gagnaði það
lítið ef axlirnar yrðu eftir í forstofunni“, hugsaði aumingja Lísa með sjálfri
sér.
Það var tilgangslaust að híma þarna við litlu dyrnar, og Lísa gekk þess
vegna aftur að glerborðinu.
Hún var hálft í hvoru að vona, að hún fyndi annan lykil eða ef til vill
einhverja töfrastafi, sem gætu hjálpað henni. (Það hafði skeð svo margt
undarlegt síðustu stundirnar að Lísa var farin að halda að í raun og veru væri
ekkert ómögulegt). Að þessu sinni fann hún flösku á borðinu. („Hún var hér
áreiðanlega ekki áðan“, sagði hún). Á flöskustútnum var miði og á honum stóð
með skrautlegum stórum stöfum: „DREKKTU MIG“.
En það stóð nú ekki „eitur“ á flöskunni og Lísa litla áræddi þess vegna að súpa á. Bragðið var alveg fyrirtak, einskonar sambland af kirsuberjum, ananas, snjóbúðing, steiktum kalkúnshana, rjóma-súkkulaði og laufabrauði. Lísa var ekki lengi að tæma flöskuna.
* * * * * * *
„En hvað mér líður skrítilega; ég er víst öll að minnka“, sagði Lísa. Og
það var satt. Hún var nú aðeins tíu þumlunga stór og hún ljómaði af gleði,
þegar hún hugsaði til þess, að nú gæti hún komizt í gegnum dyrnar út í
yndislega garðinn. Hún beið samt kyrr í nokkrar mínútur, til þess að vita,
hvort hún minnkaði ennþá meira. Tilhugsunin gerði henni dálítið órótt
innanbrjósts, „því að þessu gæti vel lokið þannig, að ég brynni alveg út eins
og t.d. kerti“, hugsaði hún. „Hvernig skyldi ég verða þá?“ Hún reyndi að gera
sér í hugarlund, hvernig kertaljósið lítur út, eftir að slokknað hefir á
kertinu, því að hún mundi ekki eftir, að hún hefði nokkurn tíma séð slíkt.
Engin frekari breyting varð á Lísu, og hún ákvað að fara strax út í
garðinn. En þegar hún var komin að dyrunum, mundi hún eftir því, að hún hafði
gleymt litla gull-lyklinum. Hún gekk að borðinu til þess að sækja lykilinn en
gat ekki með nokkru móti náð honum. Hún sá hann nú greinilega í gegn um glerið
og reyndi eins og hún gat að klifra upp einn borðfótinn, en borðfóturinn var
fjarska háll, og þegar Lísa var búin að reyna lengi árangurslaust, þá settist
hún niður veslingurinn og fór að gráta.
„Hættu þessu voli, stelpa“, sagði hún við sjálfa sig, byrstum rómi. „Komdu
þér strax á stað!“ Hún gaf sér oft sjálfri heilræðin (þótt hún raunar héldi þau
sjaldan) og stundum skammaði hún sjálfa sig svo rækilega að augun fylltust
tárum. Einu sinni reyndi hún að gefa sér utanundir, vegna þess, að hún hafði
gabbað sig í kroketleik sem hún var í við sjálfa sig. Sannleikurinn var sá, að
hún hafði ákaflega gaman af að þykjast vera tvær manneskjur. „En það þýðir nú
annars lítið núna, að látast vera tvær manneskjur, þar sem ég er tæplega ein
sómasamleg manneskja lengur“, hugsaði aumingja Lísa.
Brátt kom hún auga á litla gleröskju sem lá undir borðinu. Hún opnaði
öskjuna og sá, að í henni var ofurlítil kaka. Á kökunni stóð letrað „BORÐAÐU
MIG“, og stafirnir voru úr rúsinum. „Það er víst bezt að borða hana“, sagði
Lísa. „Ef ég stækka við það þá get eg náð lyklinum og ef ég minnka, þá get ég
smogið undir hurðina. Mér stendur á sama hvort heldur verður því að út í garðinn
verð ég að komast.“
Hún borðaði dálítinn bita og sagði áhyggjufull: „Hvort stækka ég nú eða
minnka?“ Hún studdi hendinni á höfuðið til þess að finna í hvora áttina það
færi. En henni til mikillar undrunar hélzt hún óbreytt. Reyndar er þetta nú það
sem venjulegast er, þegar kaka er borðuð en Lísu fannst þetta leiðinlegt og
ómerkilegt, því að hún var orðin svo vön óvenjulegum og óvæntum atburðum.
Hún hélt þess vegna áfram með kökuna og hafði von bráðar borðað hana upp
til agna.
2. þáttur.
Í tárapollinum.
„Þetta er þó skrítið! Nú er ég að tútna út aftur og lengjast fram úr öllu
hófi“, sagði Lísa hissa. „Verið þið sælir, fætur!“ sagði hún stúrin því að
þegar hún leit niður, þá voru fæturnir tæplega sýnilegir lengur, svo langt voru
þeir í burtu. „Veslings litlu lappirnar mínar! Hver skyldi nú setja á ykkur
skóna og færa ykkur í sokkana? Ég get það áreiðanlega ekki, því að ég verð allt
of langt í burtu. Þið verðið að bjarga ykkur eins og bezt gengur. En ég verð að
vera fjarska vingjarnleg við fótagreyin, því að annars neita þeir að hlýða
mér“, hugsaði Lísa. „Látum okkur nú sjá! Það er bezt að ég gefi þeim fallega
skó í jólagjöf“.
Hún fór nú að bollaleggja, hvernig hún ætti að koma skónum áleiðis. „Það
verður að senda þá með póstinum; dálítið er það nú spaugilegt að þurfa að
gefa sínum eigin fótum gjafir.
Utanáskriftin verður að hljóða eitthvað á þessa leið:
Hr. Hægri-Fótur Lísu-litlu
Gólfábreiðu 5
við Ofn 6 B
(með beztu kveðjum frá Lísu).
Æ, mikið dauðans bull veltur upp úr mér“. Rétt í þessu rak hún höfuðið upp
í þakið; já hún var nú talsvert meira en níu þumlungar núna! Hún tók
gull-lykilinn í skyndi og hraðaði sér að dyrunum, sem lágu út í garðinn.
Aumingja Lísa! Nú var hún orðin svo stór, að hún sá ekki lengur út í
garðinn nema með því að liggja endilöng á gólfinu. Það var vonlausara en nokkru
sinni áður, að komast út í garðinn. Hún settist því niður og fór aftur að
gráta.
„Þú ættir að skammast þín, svona stór stelpa að vera sí-skælandi; hættu því
undir eins“, sagði Lísa við sjálfa sig. En hún grét bara ennþá meira og
bráðlega var kominn stór og djúpur pollur allt í kringum hana.
Eftir dálitla stund heyrði hún fótatak í fjarska. Hún flýtti sér því að
þurrka sér um augun og beið átekta. Hvíta kanínan kom nú aftur, skrautlega
klædd. Í annarri hendi hélt hún á hönzkum en stórum blævæng í hinni. Mikið
óðagot var á kanínunni og hún tautaði sífellt fyrir munni sér: „Ó!
hertogafrúin! Ó! hertogafrúin. Sú verður fjúkandi vond, ef ég læt hana bíða“.
Lísa var full örvæntingar og þarfnaðist hjálpar. Þegar kanínan var komin nálægt
henni sagði hún því lágt og feimnislega: „Afsakið herra minn, en...“ Kanínan
tók snöggt viðbragð missti hanzkana og blævænginn og flýtti sér út í dimmuna,
eins hratt og hún komst.
Lísa tók upp hanzkana og blævænginn, og af því að hitamolla var í
forstofunni fór hún að veifa blævængnum í ákafa og lét dæluna ganga: „Hamingjan
góða! En hvað allt er skrítið í dag. Í gær gekk allt sinn vanagang. Skyldi hafa
skipt um mig í nótt? Bíðum nú við! Var það ég sjálf, sem fór á fætur í morgun?
Ég held næstum, að ég hafi verið eitthvað öðruvísi en vanalega. En ef ég er nú
ekki ég sjálf, þá kemur næsta spurningin: Hver í dauðanum er ég þá? Það er
gátan!“ Hún fór nú að leiða sér fyrir hugarsjónir alla krakka á hennar aldri,
sem hún þekkti ef ske kynni að það kæmi í ljós, að henni hefði verið skipt
fyrir einhvern þeirra.
„Ég er áreiðanlega ekki Adda, því að hún hefir svo stóra lokka í hárinu, en
ég hefi alls enga. Og ég er viss um að ég er ekki Magga, því að ég kann svo
margt en Magga — uss — hún kann hér um bil ekki neitt. Auk þess er hún hún og
ég er ég. Hamingjan góða! En hvað þetta er allt flókið! Ég ætla að vita hvort
ég kann allt, sem ég hefi lært. Bíðum nú við: fjórum sinnum fimm eru tólf og
fjórum sinnum sex eru þrettán, fjórum sinnum sjö eru — ég kemst aldrei upp í
tuttugu með þessu lagi. En margföldunartaflan sannar heldur ekkert; það er bezt
að taka landafræðina. London er höfuðborgin í París og París er höfuðborgin í Róm
og Róm — nei þetta er allt vitlaust það er ég viss um.
„Mér hefir víst verið skipt fyrir Möggu, þegar öllu er á botninn hvolft, og
nú verð ég að flytja í kofaskriflið, þar sem Magga býr. Ég fæ engin leikföng og
verð alltaf að vera að reyna að læra eitthvað. Nei — ég er staðráðin í að vera
kyrr hérna niðri, ef ég er Magga. Það verður alveg tilgangslaust fyrir fólkið
heima, að gægjast hingað niður og segja: „Komdu upp aftur barnið gott!“ Ég ætla
þá að lita upp og spyrja: „Hver er ég? Ég vil fá að vita það fyrst, og ef mér
líkar vel við manneskjuna, sem er talin vera ég þá kem ég upp; annars verð ég
hérna niðri, þangað til ég er orðin einhver önnur. Æ, ó! ég vildi, að einhver
gægðist hingað niður. Mér leiðist svo skelfilega að vera hérna einsömul!“
Um leið og hún sleppti orðinu, varð henni litið á hendur sér, og henni til
mikillar undrunar hafði hún ósjálfrátt farið í annan litla hanzkann hvítu
kanínunnar. „Hvernig í ósköpunum hefi ég farið að þessu; ég hlýt að vera að
minnka aftur?“ Hún stóð á fætur og gekk að borðinu, til þess að mæla sig við
það. Eftir því sem næst varð komizt var hún nú aðeins tvö fet á hæð, og var að
skreppa saman með miklum hraða. Lísa uppgötvaði að það var blævængurinn sem
olli þessu, og hún flýtti sér þess vegna að leggja hann frá sér og forða sér
með því frá að hjaðna alveg niður.
„Ekki mátti það tæpara standa“, sagði Lísa. Hún var dálítið skelkuð við
þessi snöggu umskipti, en hinsvegar glöð yfir því, að hún var þó enn við líði.
„Og nú er best að flýta sér út í garðinn“. Hún tók undir sig stökk að litlu
hurðinni. Hver skrambinn! Dyrnar voru ennþá lokaðar og gull-lykillinn lá á
glerborðinu eins og áður. „Æ, nú lízt mér ekki á það“, sagði veslings Lísa
vondauf, því að svona lítil og ósjálfbjarga hafði hún aldrei verið áður. „Hvað
á ég að taka til bragðs?“
Hún hafði varla sleppt orðinu, þegar henni skrikaði fótur. Skvamp — skvamp
og Lísa lá í söltu vatni, sem náði henni upp að höku. Í fyrstu hélt hún, að hún
hefði dottið í sjóinn, en hún komst brátt að raun um að hún var í tárapollinum
sem hún hafði grátið á meðan hún var níu feta há.
„Ég vildi óska, að ég hefði ekki grátið svona mikið“, sagði Lísa litla. Hún
synti um allan pollinn, ef ske kynni, að hún kæmist einhvers staðar upp úr
honum. „Nú verður mér auðvitað refsað fyrir allt volið með því að láta mig
drukkna í mínum eigin tárum. Það verður skrítið, en það er reyndar allt svo
skrítið í dag.“
Rétt á eftir heyrði hún, að eitthvað var að skvampa um í pollinum skammt í
burtu, og hún synti þangað til þess að sjá hvað það væri. Í fyrstu hélt hún að
það væri rostungur eða flóðhestur. En þá mundi hún eftir því, hvað hún var
lítil sjálf, og komst brátt að raun um að það var bara mús, sem hafði dottið í
pollinn eins og hún sjálf.
„Skyldi þýða nokkuð að ávarpa músina?“ hugsaði Lísa. „Það getur vel verið
að hún geti talað, því að allt er svo undarlegt hérna niðri. Það skaðar aldrei
að reyna: „Músin mín góð! Veiztu hvernig hægt er að komast upp úr þessum polli?
Ég er orðin svo þreytt á að synda“. (Lísa hafði aldrei áður talað við mús, og hún
var dálítið hrædd um, að hún gerði það ekki rétt). Músin horfði á hana
rannsakandi, deplaði öðru auganu, en sagði ekki neitt.
“Hún skilur mig kannske ekki; þetta er víst frönsk mús“, sagði Lísa. Hún
þuldi upp þau fáu orð sem hún kunni í frönsku, en hefir vafalauzt minnzt
eitthvað á kött því að músin tók viðbragð í vatninu og fór að skjálfa af
hræðslu. „Æ, fyrirgefðu mér“, flýtti Lísa sér að segja. Hún var hrædd um, að
hún hefði sært tilfinningar veslings músarinnar. „Ég var búin að steingleyma,
að þér er lítið um ketti gefið“.
„Lítið um ketti gefið!“ ýskraði músin. „Mundi þér vera mikið um þá gefið,
ef þú værir mús?“
“Nei, sennilega ekki“, sagði Lísa og vildi friðmælast. „Vertu ekki reið við
mig. Ég vildi nú samt, að ég gæti sýnt þér kisuna okkar, hana Dínu. Álit þitt á
köttum myndi áreiðanlega breytast ef þú sæir hana. Þetta er þvílíkur fyrirtaks
köttur“.
Lísa svamlaði letilega um í pollinum og hélt áfram: „Hún situr stundum
malandi við eldinn, sleikir lappirnar og þvær sér í framan. Hún er líka svo
dæmalaust mjúk. Svo er þetta prýðis veiðiköttur, öllum köttum duglegri við
músaveiðar. Æ, fyrirgefðu mér!“ Lísa hafði talað af sér og músin var
auðsjáanlega orðin öskuvond. „Við skulum ekki tala meira um Dínu, ef þú vilt
það síður“, sagði Lísa.
„Við segirðu, eins og ég mundi nokkurn tíma taka þátt í slíkri umræðu“.
Músin var nú alveg að sleppa sér af reiði. „Öll mín ætt hatar ketti, þessa
dæmalausu þorpara og rudda. Ég vil ekki heyra þá nefnda framar!“
“Ég skal ekki minnast á þá, biddu fyrir þér!“ sagði Lísa. Hún vildi líka
gjarnan tala um eitthvað annað. „Þykir þér gaman að — hm — hundum?“ Músin
svaraði ekki, og Lísa hélt þess vegna áfram: „Í næsta húsi við okkur er
bráð-skemmtilegur lítill hvolpur. Gaman þætti mér að sýna þér hann. Hann hefir
langt, liðað hár, og ef maður kastar einhverju, þá hleypur hann á eftir því og
sækir það. Og hann situr á afturfótunum og biður um matinn sinn, og ýmislegt
kann hann fleira. Ég man ekki helminginn af því. Bóndinn, sem á hann, segir, að
hann sé svo afskaplega gagnlegur, mörg hundruð króna virði. Hann segir, að hann
drepi allar rotturnar og, og — hamingjan góða! Nú hefi ég víst móðgað þig
aftur“. Músin var komin langt í burtu og synti eins hart og hún gat.
Lísu þótti þetta leiðinlegt og kallaði á eftir henni: „Góða mús! Gerðu það
fyrir mig að snúa aftur. Ég skal steinhætta að tala um ketti og hunda, fyrst
þér er það svo mjög á móti skapi“. Þegar músin heyrði þetta, sneri hún við og
synti rólega til Lísu. Hún var náföl í andliti og sagði lágri titrandi röddu:
„Við skulum koma í land, og þá skal ég segja þér sögu mína svo að þú skiljir
hvers vegna ég hata bæði hunda og ketti“.
Það var ekki seinna vænna, að hafa sig á burt, því að nú var orðið krökt í
pollinum, vegna fuglamergðar og annarra dýra sem höfðu dottið í hann. Þarna
voru álftarungar, endur, páfagaukar, uglur og ýms önnur einkennileg dýr. Allur
hópurinn svam nú til lands, með Lísu í fararbroddi.
[* Ýms: gamall ritháttur fornafnsins ýmis. Svam: gamalt orð yfir synti, sbr. svamla.]
3. þáttur.
Kapphlaup dýranna.
Það var sannarlega skrítinn samsöfnuður, þarna á bakkanum. Fjaðrir fuglanna
stóðu allar út í loftið og dýrin hjúfruðu sig inn í loð skinnin sin. Öll voru
rennandi blaut, köld og önug.
Fyrsta spurningin var auðvitað sú, hvernig þau gætu þornað sem fyrst. Það
var haldin ráðstefna um málið, og eftir nokkrar mínútur var Lísa orðin
góðkunningi allra dýranna. Hún spjallaði við þau eins og jafningja sína; en
innan skamms var hún samt farin að hnakkrífast við páfagaukinn. Hann hafði
stokkið upp á nef sér einhverra hluta vegna, og að síðustu fékkst ekki annað
upp úr honum en þetta: „Ég er eldri en þú, og ég veit þetta betur“. Lísa vildi
ekki ekki samsinna þessu, nema hún fengi að vita, hvað páfagaukurinn væri
gamall en af því að hann neitaði eindregið að segja til aldurs sins þá féll
málið niður.
Músin sem virtist vera mikilsvirt persóna meðal dýranna var nú orðin leið á
þófinu og skipaði öllum að setjast niður: „Hlustið á mig og þið munuð bráðlega
þorna“, kallaði hún. Lísa einblíndi á músina og hún var alveg viss um að hún
myndi fá slæmt kvef, ef hún yrði ekki þurr fljótlega. Músin hóf nú fjarska
leiðinlega þvælu og þuldi upp allt það þurrasta, sem hún mundi úr
mannkynssögunni. Dýrin urðu óþolinmóð, enda voru þau jafn rennblaut eftir sem áður.
Lítill andarungi sagði, að sér kæmi þetta ekkert við og heimtaði að músin
talaði heldur um froska og ánamaðka (þetta var víst uppáhalds matur hans).
Músin lét sem hún heyrði þetta ekki, en hélt áfram þvaðrinu. Loksins sneri hún sér að Lísu og spurði: „Ertu
ekki orðin þurr, góða mín?“ „Nei, ég er ennþá holdvot“, sagði Lísa dapurlega
„Fyrst svo er, þá held ég bezt sé að slíta fundinum og grípa til fljótvirkari
meðala“, sagði gamall spói. „Við verðum að fara í kapphlaup“. „Hvernig
kapphlaup?“ spurði Lísa einfeldnislega svona rétt til þess að segja eitthvað.
„Þú serð nú til; það er bezt að láta verkin tala“, anzaði spóinn. — Hann
markaði fyrir hringmynduðum skeiðvelli („stærðin skipti engu máli“, sagði
hann), og svo var dýrunum komið fyrir hingað og þangað í hringnum. Svo byrjaði
hver kapphlaupið, þegar honum sýndist (án þess að telja upp að þremur), og
hætti þegar honum sýndist. Það var þess vegna ekki gott að vita, hvar eða
hvenær kapphlaupið endaði. Loks kallaði þó spóinn: „Kapphlaupinu er lokið“. Og
nú söfnuðust allir í kringum hann, másandi og blásandi, en skraufþurrir og
spurðu: „Hver vann?“
Þessari spurningu gat spóinn ekki svarað án mikilla heilabrota. Og hann sat
lengi með hönd undir kinn og hugsaði, en sagði svo loksins: „Allir hafa unnið
og allir verða að fá verðlaun“.
„En hver á að gefa verðlaunin?“ hrópuðu margar raddir í senn.
„Nú auðvitað „hún“, sagði spóinn og benti á Lísu. Öll dýrin söfnuðust nú í
kringum Lísu og
hrópuðu: „Verðlaun, verðlaun!“
Lísa vissi ekki hvað til bragðs skyldi taka. Í örvæntingu sinni stakk hún
hendinni í vasann og dró upp brjóstsykurspoka. Sem betur fór, hafði hann ekki
skemmzt neitt að ráði í tárapollinum. Hún útbýtti nú brjóstsykrinum, og það
stóð heima, að hvert dýr fékk einn mola.
„En hún verður vitaskuld líka sjálf að fá verðlaun“, sagði músin.
„Auðvitað“, sagði spóinn alvarlega.
„Hvað hefirðu fleira í vasanum?“ sagði hann við Lísu.
„Bara fingurbjörgina mína“, sagði Lísa dapurlega.
„Réttu mér hana“, sagði spóinn.
Nú hrúguðust allir á ný í kringum Lísu og spóinn afhenti henni
fingurbjörgina, mjög hátíðlega, og sagði: „Við biðjum þig að veita þessari
skrautlegu fingurbjörg móttöku.“ —Þegar spóinn hafði lokið þessari stuttu ræðu
sinni, hrópuðu öll dýrin margfalt húrra.
Lísu fannst þetta fjarska hjákátlegt, en dýrin voru öll svo hátíðleg, að
hún þorði ekki að hlæja. Hún vissi ekki hvað hún átti að segja, og tók þess
vegna þegjandi við fingurbjörginni, hneigði sig og reyndi að vera grafalvarleg.
Nú lá næst fyrir að borða brjóstsykurinn og varð af því töluverður
hamagangur og læti. Stóru fuglarnir kvörtuðu yfir því, hvað molarnir væru
litlir, en brjóstsykurinn stóð í litlu fuglunum, svo að það varð að slá þá á
bakið. Þetta tók nú samt enda, og þá settust allir niður í hring, og músin var
beðin að segja frá einhverju.
Allan þann tíma, sem músin var að segja sögu sína, sat Lísa hugsandi og
virti fyrir sér hala músarinnar.
„Þú tekur ekki eftir“, sagði músin stórmóðguð. Lísa reyndi að afsaka sig,
en við það æstist músin enn meir og strunsaði að lokum burtu.
„Góða mús komdu aftur og ljúktu við söguna“, kallaði Lísa á eftir henni og
öll dýrin tóku undir. En músin lét sem hún heyrði þetta ekki og hraðaði sér
burt.
„En hvað það var leiðinlegt, að hún skyldi fara“, sagði páfagaukurinn. Og
gamall krabbi sneri sér að dóttur sinni og sagði: „Láttu þetta vera þér
viðvörun góða mín, svo að þú missir ekki stjórn á sjálfri þér!“
„Það vildi ég, að hún Dína væri hérna; henni yrði ekki mikið fyrir að sækja
músina“, sagði Lísa.
„Og hver er Dína, ef mér leyfist að spyrja?“ sagði páfagaukurinn. Lísa var
ávallt fús á að tala um uppáhaldið sitt: „Dína er kisan okkar. Enginn köttur er
hennar jafningi í músaveiðum og þið ættuð að sjá hana hremma fugla! Smáfugla borðar
hún með alveg sérstakri ánægju“.
Þessar upplýsingar komu hópnum í uppnám. Sumir fuglanna tóku strax á rás.
Gamall hrossagaukur hnýtti hálsklútinn sinn mjög vandlega og sagði: „Ég verð að
flýta mér heim; kvöldloftið er óhollt fyrir hálsinn“. Lítill kanarífugl kallaði
til unganna sinna „Komið þið nú börnin mín, þið ættu að vera háttuð fyrir
löngu!“ Dýrin fóru nú öll í burtu og töldu fram hinar og þessar ástæður. Lísa
litla var nú aftur einsömul.
„Bara að ég hefði ekki farið að tala um Dínu“, sagði hún raunalega. „Engum
virðist um hana gefið hér niðri og þó er ég viss um að hún er bezta kisa í
heimi. — Dína mín bezta! Skyldi ég nokkurn tíma sjá þig framar!“ Nú fór Lísa
aftur að skæla því að hún var svo einmana og yfirgefin.
Eftir skamma stund heyrði hún fótatak í fjarska. Hún leit upp glaðari í
bragði því að hún var hálfpartinn að vona að músinni hefði snúizt hugur og að
hún myndi koma og ljúka sögu sinni.
4. þáttur.
Sendiför eðlunnar.
Það var hvíta kanínan sem kom. Hún trítlaði hægt áfram, skímaði í allar
áttir, eins og hún hefði týnt einhverju, og tautaði fyrir munni sér:
„Hertogafrúin, hertogafrúin! Aumingja fæturnir mínir, aumingja feldurinn minn
og veiðihárin. Hún lætur taka mig af lífi, það er alveg áreiðanlegt. Hvar get
ég hafa misst þá?“ Lísa þóttist strax vita að kanínan væri að leita að
blævængnum og litlu hvítu hönzkunum þá fór hún að svipast um eftir þeim, en
þeir voru hvergi sjáanlegir. Allt virtist hafa gjörbreytzt, síðan hún var að
busla um í pollinum. Stóra forstofan, með glerborðinu og litlu dyrunum, var
gjörsamlega horfin.
Kanínan tók fljótlega eftir Lísu og kallaði önuglega til hennar: „Hvað ertu
að hringsóla María? Hlauptu undireins heim og sæktu mér hanzka og blævæng og
vertu nú dálítið snör í snúningum.“ Lísa varð svo skelkuð, að hún hljóp strax
áleiðis þangað, sem kanínan benti, án þess að reyna að leiðrétta
misskilninginn.
„Hann heldur, að ég sé vinnukonan“, sagði hún við sjálfa sig á leiðinni.
„Sá verður hissa, þegar hann kemst að raun um, hver ég er. En það er nú samt
bezt að sækja blævænginn og hanzkana, ef ég finn það þá“.
Hún hafði varla sleppt orðinu, þegar hún kom að snotru, litlu húsi. Á
dyrunum var látúnsskjöldur og á hann grafið fagurlega: „H. Kanína“. Hún gekk
inn, án þess að berja að dyrum, og flýtti sér upp á loft, dauðhrædd um að hún
myndi rekast á hina réttu Maríu, sem sjálfsagt myndi reka hana út, áður en hún
hefði náð í hanzkana og blævænginn.
„Skrítið er það, að vera í sendiferðum fyrir kanínu“, hugsaði Lísa við
sjálfa sig. „Næst fer Dína að snatta mér um allar trissur, býst ég við“. Hún
reyndi að gera sér þetta í hugarlund: „Ungfrú Lísa, þú átt að koma strax út að
ganga“. „Já, ég kem rétt bráðum, fóstra mín, en ég verð að gæta músaholunnar,
þangað til Dína kemur, og koma í veg fyrir að músin hlaupi út“. Annars býst ég
nú tæplega við“, hélt Lísa áfram, „að Dína fengi að vera lengur á heimilinu, ef
hún færi að skipa fólki fyrir á þennan hátt;'.
Lísa var nú komin inn í lítið, þrifalegt herbergi. Úti við gluggann var
borð og á því lá blævængurinn og hanzkarnir. Hún stakk þessu á sig og var í
þann veginn að fara út úr herberginu, þegar hún rak augun í flösku úti við
gluggann. Það var enginn miði á henni og þó að ekki stæði á henni „DREKKTU
MIG“, þá þreif hún til flöskunnar, tók úr henni tappann og bar hana að vörum
sér. „Í hvert skipti, sem ég borða eða drekk, þá skeður eitthvað furðulegt, og
nú ætla ég að sjá, hvaða áhrif þetta hefir. Vonandi lætur það mig stækka aftur,
því að nú er ég orðin leið á að vera svona agnar-lítil“.
Og það mátti nú segja að hún stækkaði og það miklu rækilegar en hún hafði
búist við. Þegar hún var komin niður í hálfa flöskuna eða svo, þá rak hún
höfuðið harkalega í loftið og var næstum hálsbrotnuð. Hún flýtti sér að setja
flöskuna niður og sagði við sjálfa sig: „Þetta er alveg nóg, vonandi stækka ég
ekki meira. Æ — nú kemst ég ekki út um dyrnar! Ég vildi ég hefði ekki drukkið
alveg svona mikið!“
En þetta var nú full seint séð. Hún hélt áfram að stækka og stækka og
þurfti brátt að leggjast á hnén á gólfið. En jafnvel það virtist lítið duga, og
að lokum varð hún að reka annan handlegginn út um gluggann og stinga öðrum
fætinum upp í reykháfinn. „Nú get ég mig alls ekki hreyft, hvernig skyldi þetta
enda?“ sagði veslings Lísa.
Til allrar guðslukku höfðu áhrif töfraflöskunnar nú náð hámarki sinu og
Lísa stækkaði ekki meira. En það var nú samt hvergi nærri þægilegt að liggja
svona, og Lísa var mjög döpur í bragði, enda vissi hún engin ráð út úr þessari
klípu.
„Heima leið mér miklu betur, þar var ég ekki sífellt að stækka og minnka og
þar þurfti ég ekki sífellt að hlýða skipunum músa og kanína“, hugsaði Lísa. „Ég
vildi næstum, að ég hefði ekki hlaupið inn í kanínuholuna. Og þó — og þó —
þetta er fjarska æfintýralegt líf.
[* Æfintýri: gamall ritháttur nafnorðsins ævintýri.]
Hvernig skyldi ég hafa orðið svona? Þegar ég las æfintýri, þá hélt ég
alltaf, að þau væru tómur hugarburður en nú er ég sjálf skyndi lega hlaupin inn
í eitt þeirra. Það ætti að skrifa bók um mig. Þegar ég er orðin stór, þá ætla
ég að gera það sjálf. En ég er raunar orðin stór nú
þegar, að minnsta kosti kemst ég tæplega fyrir í herberginu“, bætti hún við
dapurlega.
Eftir dálitla stund heyrði hún að kallað var útifyrir: „María, María, farðu
strax og sæktu hanzkana mína.“ Nú heyrðist fótatak í stiganum. Lísa þóttist vita,
að þetta væri hvíta kanínan, og hún varð svo hrædd, að allt húsið hristist og
skalf. Hún var búin að steingleyma því, að nú var hún svo stór, þúsund sinnum
stærri en hvíta kanínan, og að hún þurfti þess vegna ekkert að óttast.
Kanínan var nú komin að dyrunum og reyndi að opna þær, en það var
árangurslaust, því að Lísa hafði annan olnbogann fyrir þeim. Lísa heyrði, að
kanínan sagði: „Þá fer ég bara inn um gluggann“.
„Það tekst þér nú ekki“, hugsaði Lísa. Hún beið róleg, þangað til hún
heyrði í kanínunni fyrir neðan gluggann, þá rétti hún út handlegginn og sló út
í loftið. Hún heyrði hróp og síðan brothljóð í gleri og hún þóttist vita, að
kanínan hefði dottið ofan á vermireit eða eitthvað þess háttar.
Nú kallaði kanínan reiðilega: „Palli, Palli hvar ertu?“ Rödd, sem Lísa
hafði ekki heyrt fyrr, svaraði: „Ég er hérna, ég er að grafa eftir eplum, yðar
hágöfgi“.
„Heyr á endemi? Grafa eftir eplum! Komdu undireins og hjálpaðu mér upp úr
þessu“. (Meira glerhljóð.)
„Segðu mér, Palli, hvað er þarna í glugganum!“
„Það er handleggur, yðar hágöfgi“.
„Handleggur! aulabárður! Ekki eru handleggir svona stórir. Þetta fyllir út
allan gluggann!“
„Rétt er það, yðar hágöfgi, en það er samt handleggur“. „Jæja, hann á þarna
að minnsta kosti ekkert erindi. Taktu hann burtu!“
Nú kom löng þögn, en síðan heyrði Lísa pískur og hvíslingar: „Mér er hreint
ekki um það gefið, yðar hágöfgi, hreint ekki“. — Lísa sló aftur út í loftið og
að þessu sinni voru hrópin ennþá meiri og glerbrotshljóðið enn meira. „Hvað
skyldu þeir nú taka til bragðs?“ hugsaði Lísa. „Kannske þeir reyni að draga mig
út um gluggann. Ég vildi bara, að það væri hægt, því að það er annað en gaman
að híma hérna.“
Aftur var þögn, en siðar heyrðist skrölt í kerru og margar raddir í senn:
„Hvar er hinn stiginn? Ég átti ekki að sækja nema einn! Nonni er með hinn,
Nonni, komdu með hinn stigann! Reistu hann hér upp að. Nei, það er bezt að
binda þá fyrst saman — þeir ná annars ekki hálfa leið! Taktu á móti kaðlinum,
Nonni. Skyldi þakið halda? Mundu eftir lausu plötunni, hananú, þarna kemur
hún“. (Brothljóð.) „Hver á að fara niður um reykháfinn?“ „Auðvitað Nonni!!“
„Heyrirðu, Nonni, húsbóndinn segir, að þú eigir að fara niður um reykháfinn“.
„Já, einmitt það, Nonni á að fara niður um reykháfinn. Allt virðist Nonni
greyið látinn gera“, hugsaði Lísa. „Það segi ég satt, ekki vildi ég vera í hans
sporum. Reykháfurinn er þröngur, en vænt spark skal samt Nonni fá!“ Lísa dró að
sér löppina, eins langt og hún gat, og bjó sig undir það, sem verða vildi. Hún
heyrði nú að eitthvað lítið dýr var að klóra og klifrast um í reykháfnum.
„Þetta hlýtur að vera Nonni“, hugsaði hún, og sparkaði af alefli með löppinni
upp í reykháfinn.
Hún heyrði nú að margar raddir hrópuðu í einu: „Þarna flýgur þá Nonni!“ Og
síðan hrópaði hvíta kanínan: „Grípið hann, þið þarna úti við girðinguna.“ Allt
virtist í uppnámi: „Hellið ofan í hann brennivini. Nei, hristið hann ekki!“
heyrðist sagt. „Hvernig bar þetta að höndum, gamli vinur? Hvernig er heilsan?
Leystu frá skjóðunni!“
Loks heyrðist í veikri, ískrandi röddu („Þetta er Nonni“, hugsaði Lísa):
„Ég veit það tæpast, ekki meira brennivin, þökk fyrir. Ég er of ringlaður núna.
Ég veit bara það, að einhverju var slöngvað á mig og ég þaut upp, eins og kólfi
væri skotið“.
„Garmskinnið“, sögðu hinir.
„Við verðum að kveikja í húsinu“, sagði rödd kanínunnar, en þá kallaði Lísa
eins hátt og hún gat: „Ef þið gerið það, þá læt ég Dínu ráðast á ykkur!“
Við þetta sló öllu í dúnalogn, og Lísa hugsaði með sér: „Hvað skyldu þeir
gera næst! Ef þeir hafa nokkra vitglóru, þá rifa þeir upp þakið“. Eftir
stundarkorn komst aftur hreyfing á, og Lísa heyrði, að kanínan sagði: „Einar
börur nægja til að byrja með“. „Börur af hverju?“ hugsaði Lísa. En hún hafði
ekki langan tíma til umhugsunar, því að í næstu andrá var hnefafylli af
smásteinum kastað inn um gluggann og lentu sumir steinarnir í andliti Lísu.
„Það er bezt að láta þá hætta þessu“, sagði hún með sjálfri sér og kallaði svo
upp hátt: „Ég ráðlegg ykkur að gera þetta ekki aftur“.
Nú varð aftur löng þögn.
Lísa veitti því eftirtekt, sér til mikillar undrunar, að steinarnir
breyttust í litlar kökur, jafnkjótt og þeir duttu á gólfið. Henni datt
snjallræði í hug. „Ef ég borða þessar kökur, þá er ég viss um að stærð mín
breytist, og þar sem loku er fyrir það skotið, að ég stækki, þá hlýt ég að
minnka“.
Hún gleypti þess vegna í skyndi eina köku og varð allshugar fegin, er hún
fann að hún fór strax að minnka. Strax og hún var orðin nógu lítil til þess, þá
hljóp hún út um dyrnar og sá nú heilan hóp af fuglum og öðrum dýrum standa
fyrir neðan gluggann. Aumingja Nonni litli (sem reyndist vera eðla) var í
miðjum hópnum, studdur tveimur villigrísum, sem voru að hella einhverju ofan í hann.
Allur skarinn tók á rás í áttina til Lísu, strax og hún kom út, en hún hljóp í
burtu, eins hratt og hún gat, og von bráðar var hún horfin inn í þykkan skóg.
„Fyrst af öllu ætla ég að ná minni eðlilegu stærð“, hugsaði Lísa með sér, á
meðan hún var að reika um í skóginum. „Síðan ætla ég að leita að garðinum
yndislega“.
Þetta var efalaust ágætis hugmynd, viðfeldin og rétt hugsuð. Eini gallinn
var sá, að hún hafði enga hugmynd um, hvernig hún ætti að framkvæma hana. Lísa
reikaði nú þarna um á milli trjánna. En allt í einu heyrði hún lítið, snöggt
gelt rétt fyrir ofan sig. Gríðarstór hvolpur með skrítileg, kringlótt augu sat
á trjágrein og starði á hana og reyndi að ná til hennar með einni löppinni.
„Veslingurinn“, sagði Lísa blíðri röddu. Hún var nú samt dauðhrædd, þetta var
sennilega villihvolpur og ef til vill var hann svangur. Hver vissi nema hann
myndi borða hana, þótt hún reyndi að vera blíð á manninn.
An þess að hugsa út i, hvað hún var að gera, tók Lísa spýtu og rétti hana
að hvolpinum. Hann tók undir sig stökk, reyndi að glepsa í spýtuna og gelti af
kátinu. Lísa reyndi að komast undan, en hundurinn ólmaðist án afláts í kringum
hana, steypti sér kollhnís í ákafanum og reyndi að ná í spýtuna. Lísu fannst
líkast því sem hún væri að leika sér við stóran vagnhest og hún var dauðhrædd
um, að hvolpurinn mundi þá og þegar kremja hana undir löppum sinum. En loks var
hann orðinn lafmóður og lagðist niður, með tunguna lafandi og lygndi aftur
augunum.
Þetta virtist Lísu afbragðs tækifæri til þess að laumast burtu. Hún flýtti
sér af stað og hljóp allt hvað af tók, þangað til hún var orðin dauðþreytt.
„Þetta var nú annars allra skemmtilegasti hvolpur“, sagði Lísa og hallaði
sér upp að sóley, til þess að hvíla sig. „Það hefði verið nógu gaman að kenna
honum ýmsar listir, ef ég hefði verið nógu stór til þess. Hamingjan góða! Ég
var næstum búin að gleyma, að ég þarf að stækka aftur. Látum okkur nú sjá,
hvernig á ég að fara að? Ég verð víst að borða eða drekka eitthvað. — En hvar næ
ég í eitthvað matarkyns?“
Þetta var sannarlega vandasamt mál. Lísa leitaði í kringum sig, virti fyrir
sér grasstráin og blómin, en kom ekki auga á neitt, sem hægt væri að borða. Hún
rakst meðal annars á gorkúlu, sem var álíka stór og hún sjálf. Hún gægðist
undir hana og á bak við hana til beggja hliða, og henni fannst þá einnig rétt
að líta ofan á hana líka. Hún teygði sig á tá og gægðist yfir brúnina og þarna
sat þá heljarstór blár kálormur. Hann krosslagði handleggina og reykti úr
langri tyrkneskri vatnspípu. Hann virtist ákaflega rólyndur og lézt hvorki taka
eftir Lísu né nokkru öðru.
5. þáttur.
Heilræði kálormsins.
Kálormurinn og Lísa horfðu nokkra stund þögul hvort á annað. Að lokum tók
kálormurinn pípuna út úr munninum og ávarpaði Lísu, dræmt og syfjulega: „Hver
ert þú?“
Þetta var nú alls ekki skemmtileg byrjun á samræðunum og Lísa svaraði
dálítið hikandi: „Ég veit það tæpast sjálf, herra minn, eins og sakir standa.
Ég veit hver ég var, þegar ég fór á fætur í morgun, en ég held, að skipt hafi
um mig mörgum sinnum síðan“.
“Við hvað áttu með þessu?“ spurði kálormurinn alvarlega. „Reyndu að tala
ljósara“.
„Ég er hrædd um, að ég geti ekki skýrt það, sem ég á við, því að ég er ekki
ég sjálf, skiljið þér!“
„Nei — ég skil þetta ekki“, anzaði kálormurinn.
„Ég skil það ekki heldur“, sagði Lísa kurteislega, „enda er það ákaflega
undarlegt, að vera svona mismunandi stór á einum og sama degi“.
„Það er ekkert undarlegt“, sagði kálormurinn.
„Yður finnst það máske ekki ennþá, en einn góðan veðurdag breytist þér í
púpu og síðan í fiðrildi. Ég er hrædd um að yður finnist það þá talsvert
einkennilegt“, sagði Lísa.
„Nei, alls ekki“, anzaði kálormurinn.
„Jæja þá, yðar tilfinningar eru. sennilega öðruvísi en mínar. En svo mikið
er víst, að mér myndi þykja það mjög einkennilegt“, sagði Lísa.
„Þér!“ svaraði kálormurinn með fyrirlitningu. „Hver ert þú?“
Og þar með voru þau aftur komin að upphafi samræðunnar. Lísa var móðguð
yfir því, að kálormurinn skyldi aftur spyrja svona og hún sagði þess vegna:
„Mér finnst, að þér ættuð fyrst að segja mér hver þér eruð!“
„Hvers vegna?“ spurði kálormurinn.
Þetta var önnur erfið spurning. Lísa hafði ekkert svar á reiðum höndum, og
af því að kálormurinn virtist vera í önugu skapi, skundaði hún leiðar sinnar.
„Farðu ekki“, kallaði kálormurinn á eftir henni, „ég þarf að segja þér
nokkuð áriðandi“.
Lísa stóðst ekki mátið og sneri við.
„Hafðu gát á geðsmununum“, sagði kálormurinn.
„Er þetta allt?“ sagði Lísa og reyndi að bæla niður gremju sína.
„Nei“, anzaði kálormurinn.
Lísa hugsaði sem svo, að bezt væri að bíða átekta, enda hafði hún ekkert
sérstakt fyrir stafni. Það gat vel verið, að kálormurinn segði eitthvað af
viti. Hann reykti makindalega í nokkrar mínútur, en að lokum tók hann pípuna út
úr sér og sagði:
„Þú heldur, sem sagt, að um þig hafi skipt?“
„Ég er hrædd um það, herra minn! Minnið er í megnasta ólagi, og svo er ég
ekki jafnstór tíu mínútur í senn“.
„Það er bezt að athuga, hversu slæmt minnið er“, sagði kálormurinn. „Reyndu
að fara með kvæðið: „Þú ert gamall, Jón frændi!“
Lísa spennti greipar og byrjaði:
„Þú ert gamall, Jón frændi“, sagði hann Sveinn,
„og silfurhvítt hár þitt er.
Samt alltaf á höfði þú stendur sem steinn, —
hvernig stendur á öðru' eins af þér?“
„Í æsku ég skelfdist“, svo skýrði frá Jón,
„að það skaðaði heila minn, Sveinn.
Nú er ég ei lengur slíkt erkiflón, —
það er alveg víst, ég hef ekki neinn.“
„Þú ert gamall, Jón, eins og ég áður hef sagt,
og með ístru, svo það eru firnar, —
hvernig stendur þá á þeirri stinnleikamakt,
að þú stakkst þér hér kollhnís inn um dyrnar?“
„Í æsku ég fékkst mjög“, svo anzaði hinn,
„við íþróttir, vinnu og dans.
Því eru mín liðamót ennþá svo stinn
við öll afrek til sjós og til lands“.
„Þú ert gamall“, kvað Sveinn, „eins og greindi ég fyrst,
þínir gómar bera' ellinnar mein, —
en samt áztu nú gæsina’ af ódæmalyst
og eftir ei skildir nokkurt bein“.
„Í æsku“, kvað Jón, „fékkst ég við málastapp
og jagaðist við konuna' um hvert mál, —
en það var mér gott og glæsilegt happ,
því gómar mínir urðu þá sem stál“.
„Þú er gamall“, kvað Sveinn, „það er greinilegt mál,
að þú grillir trautt það, sem er hjá þér, —
og þó geturðu jafnt látið jarðepli' og ál
halda jafnvægi' á nefinu á þér“.
„Ég hef svarað þrem spurningum, — nú er það nóg“ ,
svo nörlaði Jón við hann Sveinka.
„Farðu í háttinn, því annars ég út á skóg
rek þig, ef að mér þykir þér seinka“.
„Þetta er ekki rétt með farið“, sagði kálormurinn.
„Nei, það er víst ekki allskostar rétt“, sagði Lísa.
„Það er vitlaust frá upphafi til enda“, sagði kálormurinn ákveðið. Síðan
var löng þögn.
Loks spurði kálormurinn: „Hvað viltu vera stór?“
„Það skiptir ekki svo miklu máli, bara ef ég breytist ekki svona oft; það
er óþolandi eins og
þér skiljið víst“.
„Ég skil það ekki“, anzaði kálormurinn.
Lísa þagði. Hún hafði aldrei á æfi sinni talað við annan eins þverhaus, og
það var farið að síga í hana.
„Ég vildi gjarnan vera dálítið stærri herra minn, ef yður er það ekki á
móti skapi. Það er svo fjarskalega lítilmótlegt að vera aðeins þrír þumlungar“.
„Það er ágætis stærð“, sagði kálormurinn reiður og rétti úr sér (hann var
nákvæmlega þrír þumlungar).
„En ég á því ekki að venjast“, sagði Lísa aumkvunarlega. Með sjálfri sér
hugsaði hún: „Það vildi ég, að dýrin væru ekki svona gjörn á að móðgast“.
[* Aumkvun: gamall ritháttur orðsins aumkun.]
„Þú venst því smátt og smátt“, sagði kálormurinn. Hann lét nú pípuna upp í
sig og fór aftur að reykja.
Lísa beið þolinmóð þar til honum þóknaðist að taka til máls á ný. Eftir
stundarkorn tók kálormurinn pípuna út úr sér, geispaði nokkrum sinnum og teygði
sig. Síðan skreið hann ofan af gorkúlunni og inn í grasið. Rétt þegar hann var
að hverfa sagði hann: „Af annarri hliðinni stækkar þú, en minnkar af hinni“.
„Hvaða hliðar á hann við“, hugsaði Lísa.
„Hliðar gorkúlunnar“, anzaði kálormurinn rétt eins og hún hefði spurt
upphátt. Í sömu svipan var hann horfinn.
Lísa stóð nú þarna og virti fyrir sér gorkúluna um stund. Henni fannst mjög
örðugt að gera sér ljóst, hverjar væru hliðar gorkúlunnar, þar sem hún var
kringlótt. Að lokum teygði hún samt fram hendurnar og braut tvö stykki af rönd
gorkúlunnar.
„Hvað minnkar nú og hvað stækkar“, hugsaði hún. Til þess að reyna áhrifin,
beit hún ofurlítið í stykkið, sem hún hafði í hægri hendi. Á sama augnabliki
skall hakan, af alefli á einhverju — hún hafði fallið niður á fætur hennar. —
Lísa varð mjög skeikuð yfir þessari snöggu breytingu, hún minnkaði mjög
hratt og snöggt, og það var ekki seinna vænna, að bita í hitt stykkið. Hakan
var svo þétt við fæturna, að hún ætlaði tæplega að geta opnað munninn. Það
tókst þó að lokum, og hún kyngdi bita af stykkinu, sem var í vinstri hendi.
* * * * * * *
„Þá er höfuðið aftur laust“, sagði Lísa glöð í bragði, En sú gleði var ekki
langvinn, því að skyndilega varð hún þess vör, að axlirnar voru hvergi nærri
höfðinu. Þegar hún leit niður, sá hún ekki annað en feikilega langan háls, sem
gnæfði upp úr grænu laufskrúðinu, langt fyrir neðan.
„Hvað er allt þetta græna? Og hvað er orðið af öxlunum mínum? Og veslings
hendurnar mínar, hvað er orðið af ykkur?“ Hún hreyfði til hendurnar, og kom þá
dálítil hreyfing á laufblöðin í fjarska.
Henni virtist ómögulegt, að ná með höndunum upp til höfuðsins, og reyndi
hún því að teygja höfuðið niður að fótunum. Sér til mikillar gleði komst hún að
raun um, að hún gat beygt hálsinn í allar áttir, líkt og slanga. Hún teygði nú
hálsinn niður og lét hann mynda glæsilegan boga. Blöðin, sem hún hafði verið að
brjóta heilann um, voru bara trjátopparnir, hún var sem sé vaxin hátt upp yfir
þá. Skyndilega dró hún að sér hálsinn, því að stór dúfa hafði flogið beint
framan í hana og sló hana í ákafa með vængjunum.
„Slanga!“ kallaði dúfan.
„Ég er ekki slanga“, kallaði Lísa móðguð. „Láttu mig í friði“.
„Ég endurtek það: „Slanga““, sagði dúfan.
Hún andvarpaði og sagði svo: „Ég hefi nú reynt allt, en árangurslaust“.
„Ekki hefi ég hugmynd um, við hvað þú átt“, sagði Lísa.
„Ég hefi reynt rætur trjánna, árbakkana og limagarðana. En aldrei kemst
maður undan þessum bansettu slöngum“.
Lísa botnaði ekki vitund í þessu öllu, en hún hugsaði sem svo, að það væri
tilgangslaust að
segja nokkuð, fyrr en dúfan væri búin að rausa eins og hana lysti.
„Það er svei mér nóg erfiði, að unga út eggjunum, þó að það bætist ekki
ofan á, að þurfa sífellt að vera á verði fyrir slöngum. Mér hefir tæplega komið
dúr á auga í þrjár vikur“.
„Mér þykir mjög leitt, að þú skulir hafa orðið fyrir ónæði“, sagði Lísa.
Hún var nú farin að skilja samhengið.
„Og einmitt þegar ég hafði valið mér hæsta tréð í skóginum, og hélt, að nú
mundi ég fá að vera í friði, þá þarft þú að koma eins og skollinn úr sauðarleggnum.
Svei þér, slanga!“ Dúfan
var nú aftur orðin æst.
„Ég er ekki slanga, heyrirðu það“, sagði Lísa. „Ég er — ég er —“
„Já, hvað ertu?“ sagði dúfan. „Ég býst við, að þú sért að reyna að finna
upp einhverja skreytni“.
„Ég er — lítil telpa“, sagði Lísa dálítið hikandi, því að hún minntist þess
hversu oft hún hafði tekið stakkaskiptum“.
„Trúlegt er það, eða hitt þó heldur“, sagði dúfan með djúpri fyrirlitningu.
„Ég hefi séð margar telpur um ævina en enga með þvílíkan háls. Nei, væna mín,
þú ert slanga, og þér þýðir ekkert að bera á móti því. Þú ætlar kannske að
halda því fram, að þú hafir aldrei bragðað egg?“
„Ég hefi oft borðað egg“, sagði Lísa, því að hún var sannsögult barn. „En
lítil börn borða egg, ekkert síður en slöngur“.
„Þetta er ósatt, og ef það væri satt, þá væru þau einskonar slöngur, það er
augljóst mál“, mælti dúfan.
Þetta hafði Lísu ekki komið til hugar fyrr. Hana setti hljóða, en dúfan
hélt áfram. „Ég er viss um, að þú ert að leita að eggjum, og þess vegna er sama
hvort þú ert lítil telpa eða slanga“.
„Mér er ekki sama“, greip Lísa fram í. „Ég er alls ekki að leita að eggjum,
og þó að ég fyndi egg, þá myndi ég ekki taka þau, því að mér þykja þau vond
hrá“.
,Hypjaðu þig þá burtu“, sagði dúfan úrill og hagræddi sér aftur í hreiðri sínu. — Lísa reyndi að smjúga inn á milli
trjánna, en hálsinn flæktist hvað eftir annað í grein, og hún varð oft að
stanza, til þess að losa sig. — Hún mundi nú allt í einu eftir því, að hún hélt
ennþá á gorkúlustykkinu, og hún beit í stykkin á vixl, þangað til hún hafði náð
sinni eðlilegu stærð.
Það var orðið svo langt síðan að hún hafði verið sómasamleg í laginu, að
henni fannst það skrítið í fyrstunni. En hún vandist því fljótt og fór að
spjalla við sjálfa sig eins og venjulega: „Jæja, nú er ég þó komin í samt lag
aftur, að stærðinni til. Næst liggur fyrir, að komast inn í garðinn fallega.
Hvernig fer ég nú að því?“
Þannig lét hún dæluna ganga og lallaði áfram. Innan skamms var hún stödd í
rjóðri í skóginum og sá þar lítið hús, um það bil fjögur fet á hæð. „Þeir, sem
hérna búa, mega ekki sjá mig svona stóra, þeir myndu verða sturlaðir af hræðslu“. Hún beit því í
hægri handar stykkið, og þegar hún var hjöðnuð niður í tíu sentimetra, gekk hún áleiðis til
hússins.
6. þáttur.
Piparinn og svínið.
Lísa stanzaði snöggvast, virti fyrir sér húsið og hugleiddi, hvað til
bragðs skyldi taka. Allt í einu kom einkennisklæddur þjónn hlaupandi út úr
skóginum. Lísa hugsaði sem svo, að þetta hlyti að vera þjónn eftir búningnum að
dæma. Annars var hann nákvæmlega eins og fiskur. Hann barði harkalega að dyrum
með hnúunum. Annar einkennisklæddur þjónn opnaði dyrnar. Hann var fjarska
búlduleitur, með stór augu, og líkastur froski. Hár þeirra beggja var mélað og
skrautlega lokkað. Lísu lék mikil forvitni á að vita, hvað nú stæði til, og hún
faldi sig þess vegna á bak við trén, og hlustaði á það, sem fram fór.
Fisk-þjónninn dró nú stórt bréf undan handleggnum, það var nærri eins stórt
og hann sjálfur. Hann rétti hinum þjóninum bréfið og sagði hátíðlega: „Til hertogafrúarinnar;
boðsbréf frá drottningunni um þátttöku í kroketleik“. Frosk-þjónninn át þetta
upp, en breytti ofurlítið orðunum: „Frá drottningunni; boðsbréf til
hertogafrúarinnar um þátttöku í kroketleik“.
Síðan hneigðu þeir sig djúpt, svo að hárlokkarnir rugluðust saman.
Lísa hló svo mikið að þessu, að hún varð að flýta sér inn í skóginn, svo að
ekki heyrðist til hennar. Þegar hún gægðist aftur fram, var fisk-þjónninn
horfinn, en hinn sat flötum beinum við dyrnar og góndi bjálfalega upp í loftið.
Lísa gekk dálítið hikandi að dyrunum og barði.
„Það er gjörsamlega þýðingarlaust að berja“, sagði þjónninn. „Í fyrsta lagi
er ég sömu megin hurðarinnar og þú, og í öðru lagi er hávaðinn svo mikill inni,
að það heyrist ekki til þín“. Það var satt, hávaðinn var ótrúlega mikill. Það
heyrðust stanzlausir hnerrar, ámátleg væl og öðru hvoru dynkir og glamur, eins
og allt ætlaði um koll að keyra.
„Hvernig á ég að komast inn, ef mér leyfist að spyrja“, sagði Lísa.
Þjónninn anzaði ekki spurningunni, en sagði: „Það væri ef til vill
eitthvert vit í að berja, ef hurðin væri á milli okkar. Ef þú værir til dæmis
fyrir innan, þá gætirðu barið og þá myndi ég hleypa þér út“.
Þjónninn starði upp í loftið, á meðan hann sagði þetta, og Lísu fannst það
frámunaleg ókurteisi. „En sennilega getur hann ekki að þessu gert, því að augun
eru svo fjarska ofarlega í höfðinu“, hugsaði hún. „En hann gæti samt að minnsta
kosti svarað spurningum mínum“.
„Hvernig á ég að komast inn?“ endurtók hún.
„Ég á að sitja hér til morguns“, sagði þjónninn.
„Allt í einu var dyrunum hrundið upp, og stór diskur kom fljúgandi í
loftinu; hann straukst við nef þjónsins, lenti síðan í trjástofni og brotnaði.
“Eða kannske til dagsins þar á eftir“, hélt þjónninn áfram, eins og ekkert
væri um að vera.
„Hvernig á ég að komast inn?“ sagði Lísa aftur, hærra en áður.
„Áttu yfirleitt að komast inn?“ sagði þjónninn. „Fyrst er að athuga það“.
Þetta var vafalaust rétt, þótt Lísu fyndist það óþarflega nærgöngult. „Það
er annars undarlegt, að dýrin skuli þurfa að gera veður út af öllum sköpuðum
hlutum“, hugsaði hún. Þjóninum fannst nú tímabært, að endurtaka athugasemd sína,
með smá breytingum. „Hér á ég að sitja! Já, ég á að sitja hér dögunum saman!“
„En hvað á ég að gera?“ spurði Lísa.
„Það sem þér sýnist“, anzaði þjónninn og fór að blístra.
“Æ, það þýðir ekkert að tala við hann, hann er dæmalaust flón“, sagði Lísa
örvæntingarfull. Og nú opnaði hún dyrnar og gekk inn.
Fyrr en varði var hún stödd í stóru eldhúsi fullu af reyk. Hertogafrúin sat
á þrifættum stól á miðju gólfinu og gætti smábarns. Eldabuska stóð við eldinn
og hrærði í stórum potti, sem virtist vera barmafullur af súpu.
„Það er sjálfsagt full-mikið af pipar í súpunni“, sagði Lísa og hnerraði
ákaft. Það var efalaust of mikið af pipar í loftinu. Jafnvel hertogafrúin
hnerraði öðru hvoru og barnið grenjaði og hnerraði alveg stanzlaust. Við
reykháfinn sat stór köttur, sem brosti háðslega, svo að munnvikin náðu út að
eyrum. Eldabuskan og kötturinn hnerruðu aldrei.
„Vilduð þér gjöra svo vel og segja mér, hversvegna kötturinn yðar glottir
svona?“ sagði Lísa dálítið hikandi, hún var hrædd um, að það væri óviðeigandi,
að hún talaði fyrst.
„Það er Angóra-köttur! Þarna hefurðu ástæðuna, Grís!“
Siðasta orðið sagði hertogafrúin svo hranalega, að Lísa hrökk í kuðung. En
hún komst brátt að raun um, að hertogafrúin var að tala við barnið. Hún herti
því upp hugann og hélt áfram: „Ég vissi ekki, að angórakettir væru síglottandi.
Satt að segja vissi ég ekki, að kettir gætu glott“.
„Það geta þeir allir og gera það líka flestir“, sagði hertogafrúin.
„Enga ketti hefi ég séð, sem glotta“, sagði Lísa. Hún var ánægð yfir því,
að fá að rabba við hertogafrúna.
„Þú hefir heldur ekki séð margt, það er alveg áreiðanlegt“, sagði
hertogafrúin.
Lísu geðjaðist ekki allskostar að athugasemd þessari, og hugsaði, að bezt
væri að hefja máls á einhverju öðru. En nú fékk hún nóg annað að hugsa.
Eldabuskan tók skyndilega pottinn af hlóðunum og fór nú að kasta öllu sem hönd
á festi í barnið og höfuð hertogafrúarinnar. Fyrst kom eldskörungurinn
fljúgandi, síðan fylgdi skæðadrifa af pönnum, diskum og fötum. Hertogafrúin lét
eins og ekkert væri, þótt þetta dyndi á henni, og barnið hafði allan tímann
grenjað svo óhemjulega, að það gat tæplega versnað.
„Í guðs bænum, hugsið um hvað þér eruð að gera“, sagði Lísa dauðhrædd. „Ó,
veslings fallega nefið“, kallaði hún upp í örvæntingu, þegar heljarstór
steikarpanna flaug rétt um nefbrodd barnsins.
„Ef menn skiptu sér ekki af því, sem þeim er óviðkomandi, þá myndi jörðin
snúast enn hraðar“, sagði hertogafrúin, hás af bræði.
„Ekki væri það til mikils hagræðis, ruglingur myndi komast á skiptingu dags
og nætur“, sagði Lísa himinlif andi yfir því að fá tækifæri til að sýna
þekkingu sína.”Svo sem kunnugt er, þarf jörðin 24 stundir til þess að snúast um
öxul sinn —“
„Öxi, já, vel á minnst, höggðu höfuð hennar frá bolnum!“ sagði
hertogafrúin.
Lísa gaut augunum tortryggnislega til eldabuskunnar. Sem betur fór, heyrði
hún ekki til hertogafrúarinnar, því að hún var nú aftur farin að hræra í
súpunni af miklum móði. Lísa hélt þess vegna áfram: „Ég held, að það séu 24
stundir, eða eru það tólf? Ég —“
„Æ, haltu þér saman, mér hafa alltaf leiðst tölur“, sagði hertogafrúin. Hún
fór nú aftur að hugsa um barnið og syngja nokkurskonar vögguvísu. Við lok
hverrar hendingar hristi hún barnið hranalega.
„Nú getur þú haft barnið dálitla stund, ef þú vilt“, sagði hertogafrúin við
Lísu og fleygði til hennar krakkanum. „Ég verð að fara að tygja mig, því ég ætla
að spila kroket við drottninguna“. Hún strunsaði nú út úr stofunni og
eldabuskan kastaði steikarpönnu á eftir henni.
Lísa átti í miklu basli með krakkann, enda var þetta mesti óþekktarormur.
Veslings barnið æpti og hrein án afláts, teygði sig og sparkaði, svo að Lísa
átti í fyrstu örðugt með að halda á því.
Brátt fann Lísa hina réttu aðferð við krakkann og tók hann þá með sér út.
Hún hnýtti honum í einskonar hnút og hélt í hægra eyrað og vinstri fótinn, svo
að hann gat sig ekki hreyft. „Ef ég tek ekki barnið með mér, þá verður það
vafalaust steinrotað innan skamms. Gengi það ekki glæpi næst að skilja það
eftir?“ hugsaði Lísa. Veslingurinn litli var nú hættur að snökta og hnerra, en
fór svo skyndilega að hrina. „Vertu ekki að hrina, það er slæmur siður og menn
eiga ekki að láta í ljósi tilfinningar sínar á þann hátt“, sagði Lísa.
Barnið hrein aftur og Lísa leit á það, áhyggjufull, til þess að sjá, hvað
að væri. Barnið hafði stórt kartöflunef, sem var einkennilega uppbrett, í
rauninni líktist það miklu frekar trýni en nefi. Augun voru óeðlilega lítil og
yfirleitt geðjaðist Lísu hreint ekki að útliti barnsins.
„Ef til vill var þetta aðeins venjulegur grátur en ekki hrin“, hugsaði hún
og leit í augu barnsins, til þess að aðgæta, hvort hún sæi þar ekki tár.
En þar voru engin tár. „Ef þú ætlar þér að breytast í grís, þá geturðu
siglt þinn eigin sjó, það máttu vita!“ sagði hún alvarlega.
Veslingurinn litli kjökraði aftur eða hrein (það var erfitt að vita, hvort
heldur var). Lísa hélt áfram göngu sinni og var þögul um stund.
Hún fór að brjóta heilann um, hvað hún ætti að gera við veslinginn litla,
þegar hún loksins kæmi heim til sín aftur. Allt í einu hrein barnið svo
rækilega, að hún leit á það skelfd. Nei, það var ekki hægt að vera í neinum
vafa lengur. Þetta var grís og ekkert annað, og Lísu fannst það óþarfi, að vera
að burðast með hann lengur.
Hún lét hann þess vegna niður í grasið og henni létti, er hún sá grisinn
brokka rólega inn í skóginn. „Þetta hefði orðið herfilega ljótt barn með
aldrinum, en annars var þetta allra laglegasti grís“, sagði hún. Hún fór nú að
hugsa um ýmsa krakka, sem hún þekkti og sem gætu orðið allralaglegustu grísir.
„Bara að maður vissi, hvernig ætti að breyta þeim dálítið og —“. Lísu varð orðfall, því að skyndilega kom hún auga á angóraköttinn, þar
sem hann sat á trjágrein rétt hjá.
Kötturinn brosti út undir eyru, þegar hann sá Lísu.
„Þetta er víst allra bezti köttur, þó að hann hafi fjarska langar klær og
sterklegar tennur“, hugsaði Lísa. Vissast var samt að tala við hann með
virðingu.
„Angórakisa mín“, sagði hún óframfærin, því að hún vissi ekki, hvort
kettinum myndi líka þetta ávarp. En hann brosti bara ennþá gleiðar.
„Henni geðjast að þessu“, hugsaði Lísa og hélt þess vegna áfram. „Viltu
vera svo góð að segja mér, hvaða leið ég á að fara?“
„Það fer að miklu leyti eftir því, hvert þú vilt komast“, anzaði kötturinn.
„Það er mér næstum alveg sama um“, sagði Lísa.
„Þá er líka sama, hvaða leið þú ferð“, svaraði kötturinn.
„Ég vil bara komast eitthvað“, bætti Lísa við til skýringar.
„Það kemstu líka án efa, einkum ef þú ferð nógu langt“, sagði kötturinn.
Lísa gat ekki borið á móti þessu og hún reyndi þess vegna fyrir sér með
annari spurningu: „Hverskonar fólk býr hér í sveitinni?“
„Í þessari átt hérna býr gamall hattari“, sagði kötturinn og benti með
hægri fætinum, „og í þessari átt þarna býr ungur héri“, sagði hann og benti með
vinstri fætinum. „Heimsæktu þann, sem þú vilt heldur, þeir eru báðir
brjálaðir“.
“Ég kæri mig ekki um, að umgangast brjálað fólk“, sagði Lísa.
„Þú kemst ekki hjá því“, sagði kötturinn. „Við erum öll brjáluð hérna. Ég
er brjálaður! Þú ert brjáluð!“
„Hvernig veiztu, að ég sé brjáluð?“ spurði Lísa.
„Þú hlýtur að vera það, því að annars hefðir þú ekki komizt hingað“,
svaraði kötturinn.
Lísu fannst þetta engin sönnun. „Og hvernig veiztu, að þú ert brjálaður?“
„Tökum dæmi: Hundar eru ekki brjálaðir. Viðurkennir þú það?“
„Ætli það ekki' , svaraði Lísa.
„Jæja þá“, hélt kisi áfram, „hundar urra, þegar þeir eru reiðir, og dingla
rófunni, þegar þeir eru ánægðir. Ég aftur á móti urra, þegar ég er ánægður, og
dingla rófunni, þegar ég er reiður. Þess vegna er ég brjálaður“.
„Þú urrar ekki, þú malar“, sagði Lísa.
„Kallaðu það hvað sem þér sýnist“, sagði kisi. „Ætlar þú að leika kroket
við drottninguna í dag?“
„Mig dauðlangar til þess, en mér hefir ekki verið boðið ennþá“, svaraði
Lísa.
„Við hittumst þar“, sagði kötturinn og hvarf.
Lísa varð ekkert sérstaklega forviða, því að hún var orðin svo vön
óvenjulegum viðburðum. Skyndilega kom kötturinn aftur í ljós og sagði: „Meðal
annara orða, hvað varð af krakkanum; ég var næstum því búin að gleyma að
spyrja“.
„Hann breyttist í grís“, sagði Lísa með rósemi, rétt eins og kötturinn
hefði komið aftur á eðlilegan hátt.
„Grunaði ekki Gvend“, sagði kötturinn og hvarf á ný.
Lísa beið um stund og bjóst hálft í hvoru aftur við kettinum, en hann kom
ekki í ljós. Hún hélt þess vegna bráðlega af stað, í áttina þangað, sem hérinn
bjó.
„Hattara hefi ég oft séð, og ég verð að segja, að mér þykja hérar
skemmtilegri, og sennilega eru þeir ekki eins brjálaðir“, sagði Lísa. Í þessu
varð henni litið upp, og þarna sat þá angórakötturinn aftur á trjágrein.
„Sagðirðu grís eða hrís?“ spurði hann.
„Ég sagði grís“, sagði Lísa, „og mér þætti vænt um, að þú værir ekki alltaf
að hverfa og koma svo aftur í ljós; þú gerir mig alveg ruglaða“.
„Jæja þá“, sagði Kisi og að þessu sinni hvarf hann hægt og rólega. Fyrst
hvarf rófan og að síðustu var aðeins glottið eftir; það sást um stund, eftir að
kötturinn var sjálfur horfinn.
Lísu varð hreint ekki um þetta gefið. „Oft hefi ég séð ketti án glotts“,
hugsaði hún, „en aldrei fyrri glott án kattar. Er þetta ekki alveg dæmalaust?“
Lísa hafði ekki lengi gengið, þegar hún kom auga á hús hérans. Reykháfarnir
voru eins og stór eyru í laginu og þakið var allt loðið; það gat því ekki verið
um neitt að villast. Húsið var svo stórt, að Lísa þorði ekki að nálgast það,
fyrr en hún hafði bitið í vinstri handar bita gorkúlunnar og var orðin um tvö
fet á stærð. Jafnvel þá var hún ennþá dálítið kvíðafull og sagði við sjálfa
sig: „Skyldi hann nú vera snarbrjálaður, þegar til kastanna kemur? Ég vildi
næstum, að ég hefði heldur farið til hattarans.“
7. þáttur.
Kátbrosleg kaffidrykkja.
Fyrir utan húsið, undir stóru tré, var borð, og við það sátu hérinn ungi og
hattarinn og drukku kaffi. Á milli þeirra var heslimús í fasta svefni. Hún var
notuð sem einskonar koddi, því að hérinn og hattarinn létu handleggina hvíla
þungt á höfði músarinnar. „Aumingja heslimúsin; það fer víst ekkert vel um
hana.“ hugsaði Lísa. „En hún sefur nú raunar svo fast, að hún veit ekki af
neinu.“
Borðið var fjarska stórt og þrímenningarnir sátu við annan enda þess,
„Ekkert sæti er laust, alls ekkert sæti,“ hrópuðu þeir, strax og þeir sáu Lísu.
„Það eru nóg sæti“, sagði Lísa móðguð og settist í stóran hægindastól við enda
borðsins.
„Má bjóða þér glas af aldinsafa“, sagði hérinn kurteislega. Lísa leit á
borðið, en sá ekki annað en kaffi. „Ég sé hér engan aldinsafa,“ sagði hún.
„Það er heldur enginn aldinsafi hérna“, sagði hérinn.
„Það er skrítin kurteisi, að vera þá bjóða mér hann.“ sagði Lísa gröm.
„Er það ekki líka ókurteisi, að setjast hér niður óboðin?“ sagði hérinn.
„Ég vissi ekki, að þú ættir borðið, og auk þess eru hér bollar handa miklu
fleirum en þremur“.
„Þú þyrftir að láta klippa þig“, sagði hattarinn. Hann hafði setið kyrr og
horft mjög forvitnislega á Lísu.
„Þú þyrftir að venja þig af að blanda þér í einkamál annarra; slíkt ber
vott um slæmt uppeldi“, sagði Lísa mynduglega.
Hattarinn glennti upp augun við þessa áminningu, en hann sagði aðeins:
„Hvað er líkt með hrafni og skrifborði?“
„Nú fer að verða gaman“, hugsaði Lísa. „Það gleður mig að þeir fara að geta
gátur“. Upphátt sagði hún: „Ég held, að ég geti ráðið það.“
„Jæja — heldurðu að þú vitir ráðninguna?“ sagði hérinn.
„Já, það held ég“, anzaði Lísa.
„Þá ættirðu að segja það, sem þú heldur“, sagði hérinn.
„Það skal ég gera“, sagði Lísa. „Víst er um það, að ég held það, sem ég
segi — og það gildir auðvitað einu.“
„Nei, því fer fjarri“, sagði hattarinn. „Ef þetta væri rétt, þá gætirðu
líka sagt, að það stæði á sama hvort maður segði: „Ég sé það, sem ég borða eða
ég borða það, sem ég sé“. Og þá mætti líka segja, að það væri sama hvort maður
segði: „Mér þykir vænt um það, sem ég fæ, eða ég fæ það, sem þér þykir vænt
um“.“
„Þú gætir þá líka sagt, að ég dreg andann, þegar ég sef, væri það sama og:
ég sef, þegar ég dreg andann“, tautaði heslimúsin eins og upp úr svefni.
„Hvað þér viðvikur, þá er það eitt og hið sama“, sagði hattarinn, og þar
með féll samtalið niður um stund. Lísa fór að velta fyrir sér, hvað hún mundi
um hrafna og skrifborð, en það var fremur lítið.
Hattarinn rauf þögnina: „Hvaða dagur er í dag?“ spurði hann Lísu. Hann tók
úrið sitt upp úr vasanum, leit á það, hristi það rækilega og bar það upp að
eyranu.
Lísa hugsaði sig dálítið um og sagði svo: „Sá fjórði“.
“Það skakkar tveimur dögum“, sagði hattarinn og andvarpaði. „Ég sagði það
margsinnis, að það mundi ekkert þýða að bera smjör inn í úrið“, sagði hann og
leit reiðilega til hérans.
„Þetta var bezta smjör, sem fáanlegt er,“ svaraði hérinn blíðum rómi.
„Það hafa nú samt slæðzt molar með, þú hefðir ekki átt að smyrja úrið með brauðhnífnum“.
Hérinn tók úrið, dapur í bragði, dýfði því niður í kaffið sitt og leit svo
á það aftur. En honum datt ekkert betra í hug en að segja aftur: Þetta var
bezta rjómabússmjör“.
Lísa horfði steinhissa á úrið. „Þetta er skrítið úr“, sagði hún. „Það sýnir
mánaðardagana, en ekki hvað klukkan er“.
„Nei, það er heldur engin ástæða til slíks, eða sýnir máske úrið þitt hvaða
ár er?“
„Nei, auðvitað ekki“, svaraði Lísa um hæl, „en það er vegna þess, að sama
árið stendur svo fjarska lengi yfir.“
„Og nákvæmlega þannig er mitt“, sagði hattarinn.
Lísa skyldi hvorki upp né niður. Það virtist engin vitglóra í athugasemd
hattarans. „Mér er ekki alveg ljóst, við hvað þú átt“, sagði Lísa.
„Heslimúsin er sofnuð aftur“, sagði hattarinn og hellti heitu kaffi á
trýnið á henni.
Heslimúsin skók sig dálítið óþolinmóðlega og sagði, án þess að opna augun:
„Auðvitað, auðvitað, það er nákvæmlega það, sem ég ætlaði sjálf að segja“.
„Ertu búin að ráða gátuna?“ spurði hattarinn og sneri sér að Lísu.
„Nei, ég gefst upp við það. Hver er ráðningin?“
„Ég hefi ekki minnstu hugmynd um það“, anzaði hattarinn.
„Ég ekki heldur“, sagði hérinn.
Það þykknaði í Lísu. „Getið þið ekki notað tímann til annars betra en að
koma með gátur, sem engar ráðningar hafa?“
„Ef þú þekktir Tímann eins vel og ég, þá myndir þú ekki tala um að nota
hann til eins eða annars. Þú hefir víst aldrei talað við Tímann? Það er
áríðandi, að koma sér vel við hann. Hann lætur þá klukkuna hegða sér nákvæmlega
eins og manni sýnist. Við skulum t.d. gera ráð fyrir, að klukkan væri níu að
morgni og þú ættir að fara í skólann. Þú þyrftir þá ekki annað en að hnippa
ofurlítið í Tímann og klukkan tæki stökk: Hálf-eitt! Matmálstími!“
(„Betur að satt væri,“ tautaði hérinn með sjálfum sér.)
„Það væri alveg fyrirtak“, sagði Lísa hugsandi. „En — en ég væri þá alls
ekkert svöng!“
„Nei, ekki strax. En þú létir bara klukkuna vera hálf-eitt eins lengi og
þörf krefðist,“ sagði hattarinn.
„Ferð þú þannig að“, spurði Lísa.
„Nei, því fer nú ver,“ anzaði hattarinn. „Ég lenti einu sinni í rifrildi
við Tímann. Það var um það leyti sem hérinn þarna varð vitlaus. Þetta var á
söngskemmtun, sem Hjartadrottningin stóð fyrir. Ég átti að syngja eitt lítið
lag og gerði það líka með prýði. En ég hafði tæplega lokið fyrstu ljóðlinunni,
þegar drottningin sagði: „Hann drepur Tímann“.“
„Þetta er hræðilegt“, sagði Lísa.
„Og upp frá þessu vildi Tíminn ekkert gera fyrir mig“, sagði hattarinn
raunamæddur.
„Nú er klukkan alltaf fjögur.“ Það rann upp ljós fyrir Lísu. „Er það þá
ástæðan fyrir því, að öll þessi bollapör eru hérna?“ spurði hún.
„Þú átt kollgátuna“, anzaði hattarinn og stundi við. „Það er alltaf
kaffitími, og við höfum aldrei tíma til að þvo upp leirtauið“.
„Og þess vegna flytjið þið ykkur til við borðið, býst ég við“, sagði Lísa.
„Já, eftir því sem bollapörin óhreinkast.“
„En hvernig farið þið að, þegar þið hafið farið allan hringinn?“ spurði
Lísa.
„Eigum við ekki að tala um eitthvað annað“, sagði hérinn og geispaði. „Ég
er orðinn hálf-leiður á þessu og legg til, að unga stúlkan segi okkur heldur
sögu.“
„Ég er hrædd um, að ég kunni enga sögu“, sagði Lísa.
„Þá gerir heslimúsin það“, hrópuðu hérinn og hattarinn, báðir í einu. „Við
skulum vekja heslimúsina“. Og þeir stjökuðu við henni frá báðum hliðum.
Heslimúsin lauk upp augunum og sagði hárri og skrækri röddu: „Ég var ekki
sofandi, og ég heyrði hvert orð, sem þið sögðuð“.
„Segðu okkur sögu“, sagði hérinn.
„Já, góða gerðu það“, sagði Lísa biðjandi.
„Og flýttu þér nú, því að annars sofnarðu“, sagði hattarinn. Heslimúsin hóf
sögu sína og var óðamála: „Einu sinni fyrir löngu voru þrjár litlar systur. Þær
hétu Anna, Kristín og Sigrún og áttu heima á botninum á stórum brunni — —“
„Á hverju lifðu þær?“ spurði Lísa. Allt sem snerti mat og drykk, vakti
forvitni hennar og eftirtekt.
„Þær lifðu á sýrópi“, svaraði heslimúsin eftir dálitla umhugsun.
„Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur“, sagði Lísa. „Þeim myndi hafa
orðið illt!“
„Það varð þeim líka, þeim varð fjarska illt“, svaraði heslimúsin.
Lísa reyndi að gera sér í hugarlund, hvernig henni myndi gerðjast að svona
lífi, henni fannst það fjarska undarlegt og æfintýralegt. „En hvers vegna
bjuggu þær niðri í brunni?“ spurði hún.
„Drekktu dálítið meira kaffi“, sagði hérinn, alvarlegur á svip.
“Ég hefi ennþá ekkert kaffi fengið, og get þess vegna tæplega drukkið
meira!“ sagði Lísa móðguð.
„Þú átt við, að þú getir ekki drukkið minna“, leiðrétti hattarinn. „Það er
mjög auðvelt að drekka meira en ekki neitt“.
Lísa sá, að þetta var hverju orði sannara, og náði sér þess vegna í
kaffitár og smurt brauð. Síðan sneri hún sér að heslimúsinni og endurtók
spurninguna: „Hvers vegna bjuggu þær í brunni?“
Heslimúsin hugsaði sig um, en sagði svo: „Þetta var sýrópsbrunnur“.
„Svoleiðis brunnar eru nú ekki til“, sagði Lísa gremjulega, en hattarinn og
hérinn höstuðu á hana. Heslimúsin sagði, stutt í spuna: „Ef þú getur ekki setið
á þér, þá er bezt, að þú ljúkir sjálf við söguna“.
„Nei, góða, haltu áfram. Ég skal ekki grípa fram í fyrir þér aftur. Og það
getur vel skeð, að það sé til einn sýrópsbrunnur“, sagði Lísa blíðlega.
„Einn brunnur“, sagði músin fyrirlitlega. En hún lét samt tilleiðast að
halda áfram: „Og þessar litlu systur voru að læra að teikna —“
„Hvað teiknuðu þær?“ spurði Lísa. Hún hafði steingleymt loforði sinu.
„Sýróp“, anzaði heslimúsin, að þessu sinni án umhugsunar.
„Ég vil fá hreinan bolla, við skulum öll færa okkur um eitt sæti“, sagði
hattarinn.
Hann færði sig um eitt sæti, og það sama gerði heslimúsin. Hérinn settist í
sæti heslimúsarinnar og Lísa varð nauðug viljug að setjast í sæti hérans.
Hattarinn var sá eini, sem nokkuð vann við skiptin. Lísu voru þau mjög til ama,
því að hérinn var nýbúinn að sulla niður úr mjólkurkönnunni í sitt sæti.
Lísa vildi ógjarnan móðga heslimúsina aftur, en sagði samt hikandi: „Ég
botna ekki í þessu, hvaðan fengu þær sýrópið?“
„Maður nær vatni úr vatnsbrunni, hvers vegna skyldi þá ekki sýróp fást úr
sýrópsbrunni? Dæmalaus aulabárður ertu!“ sagði hattarinn.
„Þær voru að læra að teikna“, sagði heslimúsin og geispaði og neri augun.
Hún var nú aftur orðin fjarska syfjuð. „Og þær teiknuðu allt milli himins og
jarðar — allt, sem byrjar á m — “
„Hvers vegna m?“ spurði Lísa.
„Hvers vegna ekki?“ anzaði hérinn.
Lísa þagnaði.
Heslimúsin hafði nú lygnt aftur augunum og var farin að móka, en hún hrökk
upp með andfælum við það, að hattarinn kleip hana. — „Allt, sem byrjar á m,
t.d. músagildru, mjólk, magafylli, minni. Hefirðu nokkurn tíma séð málverk af
minninu?“
„Ef satt skal segja, þá held ég ekki“, sagði Lísa.
„Þá ættirðu að halda þér saman“, sagði hattarinn.
Svona óskammfeilni gat Lísa ekki látið sér lynda. Hún spratt á fætur,
stórmóðguð og hraðaði sér burt. Heslimúsin steinsofnaði á sama augnabliki, en
hinir gáfu því ekki allra minnsta gaum, þótt hún færi. Lísa leit nokkrum sinnum
við, og það siðasta, sem hún sá til hérans og hattarans, var það, að þeir voru
að bisa við að troða heslimúsinni ofan í kaffiketil.
„Þangað fer ég ekki aftur“, sagði Lísa og lagði leið sína inn í skóginn.
„Þetta er það bjánalegasta samkvæmi, sem ég hefi nokkurn tíma verið í“.
Hún hafði varla sleppt orðinu, þegar hún veitti því athygli, að á einu
trjánna voru dyr. „Þetta er skrítið; en í dag er raunar allt svo skrítið“,
sagði hún. „Það er bezt að fara umsvifalaust inn í tréð“. Og það gerði hún.
Lísa var aftur stödd í forstofunni við litla glerborðið. „Að þessu sinni
skal ég fara skynsamlegar að ráði mínu“, sagði hún við sjálfa sig. Hún tók nú
gull-lykilinn og opnaði dyrnar út í garðinn dásamlega. Síðan borðaði hún af
gorkúlunni (hún hafði geymt stykki í vasa sínum), þangað til hún var eitt fet á hæð, og gekk inn í gegnum dyrnar.
Og loksins var hún þá komin inn í garðinn fagra, mitt á meðal yndislegra
blómabeða og svalandi gosbrunna.
8. þáttur.
Hjá drottningunni.
Við garðsinnganginn stóð stórt rósatré, alsett hvítuim rósum. En í kringum
það stóðu þrír garðyrkjumenn, og voru sem óðast að mála þær rauðar. Þetta
fannst Lísu einkennilegt. Hún gekk nær til þess að virða þetta fyrir sér, og þá
heyrir hún, að einn garðyrkjumaðurinn segir: „Hafðu augun á réttum stað, Fimm!
Skvettu ekki málningunni á mig“.
“Ég gat ekki gert að því“, sagði Fimm fýlulega. „Sjö rak í mig olnbogann“.
Nú leit Sjö upp og sagði: „Þarna er þér rétt lýst, Fimm. Allt þarftu að
kenna öðrum“.
„Þú ætlir nú að halda þér saman“, sagði Fimm. „Síðast í gær heyrði ég
drottninguna segja, að þú ættir skilið að missa höfuðið“.
„Fyrir hvað?“ spurði sá, sem fyrst hafði talað.
„Það kemur þér ekki við, Tvistur“, sagði Sjö.
„Jú, honum kemur það sannarlega við, og ég ætla að segja honum það“, sagði
Fimm. „Það var vegna þess, að hann lét eldabusku drottningarinnar hafa
túlípanarætur í staðinn fyrir lauk“.
Sjö kastaði frá sér penslinum og sagði: „Já, hvílíkt hróplegt óréttlæti að
—“, en þá kom hann skyndilega auga á Lísu. Hann þagnaði og hinir tveir litu
við. Síðan hneigðu þeir sig allir djúpt.
„Viljið þér gjöra svo vel og segja mér, hvers vegna þið eruð að mála þessar
rósir?“ spurði Lísa.
Fimm og Sjö þögðu og litu á Tvistinn. „Sjáið þér til, ungfrú góð, þessar
rósir áttu eiginlega að vera rauðar“, sagði Tvisturinn. „Við gróðursettum í
misgáningi hvítt rósatré, og ef að drottningin kemst á snoðir um það, þá verðum
við allir hálshöggnir. Þess vegna, ungfrú, erum við að reyna, áður en
drottningin kemur, að —“ „Drottningin! Drottningin!“ hrópaði Fimm skyndilega
og garðyrkjumennirnir þrír fleygðu sér flötum á jörðina. Nú heyrðist mikið
fótatak, og Lísa skimaði í kringum sig. Hana var farið að lengja eftir að sjá
drottninguna.
Brátt kom í ljós tíguleg skrúðganga. Fyrstir voru tíu hermenn, sem báru
spjót, þeir voru í laginu eins og garðyrkjumennirnir, flatir og ílangir og
höfðu lauf á húfunum. Því næst komu tíu hirðmenn, klæddir rauðu flosi. Þeir
gengu tveir og tveir saman eins og hermennirnir. Næst komu konunga-börnin, tíu
að tölu. Þau trítluðu áfram, kát og glöð, og héldust í hendur. Þau voru öll
skreytt hjörtum. Þá komu gestirnir; það voru einkum konungar og drottningar, en
á meðal þeirra sá Lísa hvítu kanínuna. Kanínan spjallaði við tiginmennin og
brosti við öllu, sem sagt var. Hún gaf Lísu ekki hinn allra minnsta gaum. Nú
kom Hjartagosi, og bar hann kórónu konungsins á skarlatsrauðum flossvæfli. Og
siðast í fylkingunni voru þau Hjartakóngurinn og Hjartadrottningin.
Lísa var í vafa um, hvort hún ætti að kasta sér á grúfu, eins og
garðyrkjumennirnir, en hún mundi ekki eftir neinni slíkri siðvenju við
skrúðgöngur. „Hvað væri líka varið í skrúðgöngur, ef maður ætti að kasta sér á
grúfu, þannig, að maður gæti ekki séð þær?“ hugsaði hún. Hún stóð þess vegna
kyrr á sínum stað og beið þess er verða vildi.
Þegar fylkingin kom á móts við Lísu, þá stönzuðu allir og horfðu á hana, og
drottningin sagði hörkulega: „Hver er þetta?“ hún beindi spurningu sinni að
Hjartagosanum, en hann lét sér nægja, að hneigja sig og brosa.
„Bjálfi!“ sagði drottningin óþolinmóð. „Hvað heitirðu, barn?“ sagði hún við
Lísu.
„Ég heiti Lísa, yðar hátign“, sagði hún mjög kurteislega. En við sjálfa sig
sagði hún: „Í rauninni eru þetta bara spil, og ég þarf ekkert að óttast þau“.
„Og hvaða menn eru þetta?“ sagði drottningin og benti á garðyrkjumennina
þrjá, sem lágu í kringum rósatréð. Þeir lágu á grúfu, og þar sem gerðin á bökum
þeirra var nákvæmlega eins og á öllum öðrum, sem þarna voru, þá gat drottningin
ekki séð, hvort þetta voru garðyrkjumenn, hermenn eða hirðmenn eða jafnvel
einhver af hennar eigin börnum.
„Hvernig ætti ég að vita það?“ sagði Lísa og var sjálf hissa á því, hvað
hún var djörf. „Mér kemur það ekkert við“.
Drottningin varð eldrauð af bræði. Hún horfði um stund á Lísu og öskraði
svo eins og óargadýr: „Hálshöggvið hana! Hálshöggvið — “
„Þvættingur“, sagði Lísa skýrt og skorinort, og við það þagnaði drottningin.
Kóngurinn lagði hendina á handlegg drottningarinnar og sagði hugleysislega:
„Gættu að því, góða mín, að þetta er aðeins barn!“
Drottningin sneri sér snúðugt frá honum og sagði við hjartagosann: „Snúðu
þeim við!“
Gosinn sneri garðyrkjumönnunum gætilega við með öðrum fætinum.
„Rísið upp!“ sagði drottningin hárri, skærri röddu og samstundis spruttu
garðyrkjumennirnir þrír á fætur og fóru að hneigja sig í ákafa fyrir Kónginum
og Drottningunni, kóngsbörnunum og öllum hinum.
„Hættið þessu, mig er farið að sundla“, hrópaði Drottningin. Nú gekk hún að
rósatrjánum og spurði: „Hvað hafið þið verið að gera hérna?“
Tvistur féll á kné og sagði auðmjúkri röddu: „Yðar hátign! Við vorum að
reyna að —“
„Já, ég sé, hvað þið hafið verið að reyna“, sagði drottningin. Hún hafði nú
athugað rósirnar. „Hálshöggvið þá!“ Skrúðgangan hélt áfram leiðar sinnar, en
þrír hermenn urðu eftir, til þess að taka veslings garðyrkjumennina af lífi.
Þeir flýðu til Lísu og báðu hana um vernd.
„Þið skuluð ekki verða hálshöggnir“, sagði Lísa. Hún tók nú
garðyrkjumennina og faldi þá í stórum jurtapotti, sem stóð þarna nálægt.
Hermennirnir leituðu að þeim stundarkorn, en héldu svo rólegir leiðar sinnar á
eftir skrúðfylkingunni.
„Hvernig gekk?“ spurði drottningin.
„Þeir eru nú hauslausir“, svöruðu hermennirnir.
„Það er ágætt“, sagði drottningin. „Kannt þú að leika kroket?“
Hermennirnir sögðu ekkert, en litu á Lísu. Það var bert, að spurningunni
var beint til hennar.
„Já“ , svaraði Lísa.
„Komdu þá með okkur“, sagði drottningin, og Lísa slóst í för með
fylkingunni.
„Gott er blessað veðrið í dag“, sagði hikandi rödd við hlið hennar. Lísa
leit til hliðar og sá, að þetta var hvíta kanínan, lúpuleg á svip.
„Rétt er nú það“, sagði Lísa. „Hvar er hertogafrúin?“
„Uss, uss!“ sagði kanínan lágri, sjálfandi röddu. Hún horfði
tortryggnislega í kringum sig og hvíslaði síðan að Lísu: „Hún er dæmd til
dauða“.
„Hvers vegna?“ spurði Lísa.
„Sagðir þú, að það væri raunalegt?“ spurði kanínan.
„Nei, mér finnst það hreint ekkert raunalegt“, sagði Lísa, „ég var að
spyrja, hvers vegna hún hafi verið dæmd til dauða“.
„Hún gaf drottningunni utan undir —“ sagði kanínan og Lísa fór að
skellihlæja.
„Þei, þei“, sagði kanínan óttaslegin. „Drottningin gæti heyrt til þín.
Hertogafrúin kom mjög seint og drottningin sagði að —“.
„Hver á sinn stað“, hrópaði nú drottningin þrumuröddu, og við það komst
mikil ringulreið á hópinn. Menn hlupu til og frá og rákust hver á annan. Eftir
skamma stund voru samt allir komnir á réttan stað og leikurinn byrjaði.
Lísa hafði aldrei á ævi sinni séð svona undarlegan kroketvöll. Hann var
allur í hólum og dældum; kroketkúlurnar voru lifandi broddgeltir og kylfurnar
flamingóar. Og hermennirnir urðu að krjúpa niður og standa á fjórum fótum, því
að þeir voru notaðir sem bogar.
Lísa átti í miklu basli með að stjórna flamingóanum. Loks tókst henni þó að
ná taki á kroppnum, þannig að fæturnir héngu niður. En í hvert skipti, sem
henni hafði tekizt að teygja úr hálsi flamingóans og hún ætlaði að fara að gefa
broddgeltinum vænt högg með höfði hans, þá leit hann svo skringilega á hana, að
hún gat ekki að sér gert að fara að skellihlæja. Og þegar henni svo aftur tókst
að koma höfðinu niður og ætlaði að byrja að nýju, þá sá hún sér til mikillar
gremju, að broddgölturinn hafði teygt úr kryppunni og rölti burt. Þegar við
þetta bættist svo, að alls staðar voru þúfur og annað til ama, og að
hermennirnir gátu aldrei verið kyrrir, þá var það engin furða, þótt Lísu þætti
leikurinn erfiður.
Allir, sem með voru í leiknum, hömuðust hver sem betur gat og biðu aldrei
þar til þeir áttu að leika. Þess á milli rifust þeir um broddgeltina. Það leið
þess vegna ekki langur tími, þar til drottningin var orðin æf af reiði. Hún
æddi um leikvöllinn og hrópaði í sífellu: „Hálshöggvið hann“, eða „hálshöggvið
hana!“
Lísu var orðið mjög órótt innanbrjósts. Hún hafði að vísu ekki ennþá lent í
rifrildi við drottninguna, en slíkt gat komið fyrir þá og þegar. „Og hvað mundi
verða um mig þá?“ hugsaði hún. „Það virðist vera tízka hér að hálshöggva fólk,
mig furðar mest á því, að nokkur skuli vera enn á lífi“.
Hún skimaði í kringum sig og var að brjóta heilann um, hvernig hún gæti
komist burt. En þá sá hún skyndilega einkennilega sýn í loftinu. Í fyrstu
botnaði hún ekkert í, hvað þetta gæti verið, en þegar hún hafði virt það fyrir
sér stundarkorn, sá hún, að þetta var gleiðgosalegt bros, og hún sagði við
sjálfa sig: „Þetta er angórakötturinn; loksins sé ég þó einhvern, sem ég get
talað við“.
“Hvernig gengur?“ spurði kötturinn, strax og munnurinn var kominn
almennilega í ljós. Lísa beið róleg, þangað til eyrun komu í ljós, því að hún
hugsaði sem svo, að lítið þýddi að tala við köttinn fyrr. Eftir stundarkorn var
allt höfuðið komið í ljós, og þá lét Lísa niður flamingóann sinn og fór að
segja kettinum frá leiknum. Hún var fjarska fegin, að hafa einhvern, sem vildi
hlusta á hana. Hvað kettinum viðvék þá virtist hann álíta, að nú sæist nóg af
honum, því ekki kom meira í ljós en höfuðið.
“Mér finnst þeir alls ekki leika rétt, og svo rífast þeir allir svo
gífurlega, að maður heyrir tæplega til sjálfs sín. Og það virðast ekki vera
neinar leikreglur. Að minnsta kosti fer enginn eftir þeim. Það er fjarska
truflandi, að allt skuli vera lifandi, sem notað er í leiknum. Þarna er t.d. boginn,
sem kúlan mín á að fara í gegnum næst, á gangi hinum megin á vellinum. Og ég
hefði hitt broddgölt drottningarinnar núna rétt í þessu, ef hann hefði ekki
hlaupið í burtu, þegar hann sá minn broddgölt nálgast.
Geðjast þér vel að drottningunni?“ spurði kötturinn lágri röddu.
„Nei, hreint ekki“, sagði Lísa, „hún — “. Lísa tók skyndilega eftir því, að
drottningin stóð fyrir aftan hana, á hleri. „Hún vinnur áreiðanlega, og það er
þess vegna tæplega ómaksins vert að vera að þessu,“ bætti Lísa við.
Drottningin brosti og gekk framhjá.
„Við hvern ertu að tala?“ sagði kóngurinn við Lísu. Hann leit forvitnislega
á kattarhöfuðið.
„Það er vinur minn — angóraköttur. Má ég kynna ykkur?“ sagði Lísa.
„Mér geðjast ekki að útliti hans, en hann má kyssa á hönd mína, ef hann
langar til“, sagði kóngurinn.
„Ég vil helzt komast hjá því“, sagði kötturinn.
„Enga óskammfeilni; góndu ekki svona á mig“, sagði kóngsi. Hann skaut sér á
bak við Lísu.
„Kettinum leyfist að líta á kónginn“, sagði Lísa. „Ég hefi lesið það í
einhverri bók“.
„Ég vil ekki hafa hann hér“, sagði kóngurinn ákveðið og kallaði svo á
drottninguna. „Góða mín, viltu ekki láta koma þessum ketti burtu?“
Drottningin leysti ávallt á sama hátt úr öllum vandkvæðum, stórum og smáum.
„Hálshöggvið hann“, sagði hún, án þess svo mikið sem að líta við.
„Ég skal sjálfur sækja böðulinn“, sagði kóngur og skundaði burt.
Lísa áleit, að réttast væri að fara og athuga hvernig leikurinn gengi, en
þá heyrði hún allt í einu drottninguna öskra af bræði, Hún hafði áður heyrt hana
dæma þrjá leikendur til dauða, vegna þess, að þeir gleymdu að leika, og hún var
þess vegna hrædd um, að slíkt gæti hent sig. Hún fór því að leita að
broddgeltinum sinum.
Eftir langa mæðu kom hún auga á hann, þar sem hann var að berjast við annan
broddgölt.
Lísu virtist þetta ágætis tækifæri til að slá þeim saman, en þegar til kom,
þá strandaði allt á því, að flamingóinn hennar var rokinn burtu, og var að
reyna að hoppa upp í tré skammt frá.
Hún sótti flamingóann, en þegar hún kom aftur, var bardaganum lokið og
báðir broddgeltirnir horfnir. „Jæja, það gerir þá ekkert til, allir bogarnir
eru hvort eð er horfnir“, sagði Lísa við sjálfa sig. Og fyrst svona var komið,
þá gekk hún aftur þangað, sem kötturinn átti að vera, til þess að spjalla við
hann.
Henni til mikillar undrunar var stór þyrping í kringum köttinn. Kóngurinn,
drottningin og böðullinn áttu í orðasennu og töluðu öll í einu. Allir aðrir
þögðu og voru áhyggjufullir á svip.
Þegar þau sáu Lísu þá lögðu þau vandamálið fyrir hana og skýrðu fyril
henni deiluatriðin.
En þar sem þau töluðu öll í einu, þá átti hún mjög erfitt með að skilja
samhengið.
Böðullinn sagðist ekki geta höggvið höfuðið af, án þess að það stæði á búk,
sem hann ætti að höggva það frá. Hann sagðist aldrei hafa gert slíkt, og myndi
ekki gera það á gamals aldri.
Kóngurinn hélt því fram, að allir, sem hefðu höfuð, ættu líka að geta misst
það, og hann vildi ekki heyra neinn þvætting.
Drottningin sagði, að ef eitthvað yrði ekki samstundist gert í málinu, þá
skyldu allir viðstaddir verða hálshöggnir. (Það var þessi hótun, sem olli
áhyggjusvipnum).
Lísu datt ekki annað snjallræði í hug en að segja: „Hertogafrúin á höfuð
kattarins, og það verður að leita hennar álits“.
„Hún er í fangelsinu, sæktu hana!“ sagði drottningin við böðulinn. Og
böðullinn þaut af stað eins og örskot.
Höfuð kattarins fór nú að óskýrast, og þegar böðullinn kom aftur með
hertogafrúna, þá var það alveg horfið, Kóngurinn og böðullinn fóru að hlaupa
ringlaðir fram og aftur og reyndu að finna höfuðið, en hópurinn hélt áfram
kroketleiknum.
9. þáttur.
Skjaldbökubróðirinn raunamæddi.
„En hvað það gleður mig, að sjá þig aftur, ljúflingurinn minn“, sagði
hertogafrúin. Hún tók undir handlegg Lísu, og þær fóru að ganga um í hægðum
sinum.
Lísa varð fegin við að sjá hertogafrúna í svona góðu skapi, og hún hugsaði
með sér, að sennilega hefði það bara verið piparinn, sem gerði hana svo geðilla
í eldhúsinu, sællar minningar.
„Þegar ég er orðin hertogafrú, þá ætla ég engan pipar að hafa í eldhúsinu“,
sagði Lísa við sjálfa sig. Súpur geta verið ágætar án pipars og kannske er það
hann, sem gerir fólk geðillt. Og skyldi það ekki vera edik, sem gerir menn
súra, og brjóstsykur, sem gerir börnin sæt? Ég vildi, að menn vissu þetta; þá
væri tæplega farið eins sparlega með brjóstsykurinn og gert er“.
Lísa var mjög ánægð yfir þessum spaklegu hugsunum sínum, og var búin að
steingleyma hertogafrúnni. Hún hrökk þess vegna við, þegar hertogafrúin skrækti
inn í eyra hennar: „Þú ert að hugsa um eitthvað, væna mín, og þess vegna
gleymir þú að tala. Ég get ekki sagt þér það í svipinn, hvað hægt er að læra af
því, en ég man það bráðum“.
„Ef til vill er ekkert hægt að læra af því“, leyfði Lísa sér að segja.
Uss, uss, barnið gott, það má læra eitthvað af öllu, ef maður aðeins hefir
augun opin“, sagði hertogafrúin og hjúfraði sig betur upp að Lísu.
Lísa kærði sig ekki um að hafa hertogafrúna svona nálægt sér, fyrst og
fremst vegna þess, að hún var svo hræðilega ljót, og auk þess lét hún hökuna
hvíla á öxl Lísu og hertogafrúin hafði óvenjulega þunga höku. En Lísa vildi
ekki vera ókurteis og reyndi þess vegna að láta sér þetta lynda.
“Nú virðist leikurinn ganga betur“, sagði hún til þess að reyna að halda
uppi samræðum.
„Já, satt er það, og af því má læra, að það er ástin, sem lætur jörðina
snúast og heldur heiminum í skorðum“, sagði hertogafrúin.
„Ég hefi einhvern tíma heyrt, að hver ætti að hugsa um sitt og ekki skipta
sér af annarra högum, og þá mundi jörðin snúast af sjálfu sér“, sagði Lísa
lágt.
„Rétt er það, það þýðir hér um bil það sama“, sagði hertogafrúin og gróf
hökuna ofan í öxl Lísu. „Og af því má læra þetta: „Lík börn leika bezt“.“
„En hvað hún er gefin fyrir lærdóm“, hugsaði Lísa.
Þú ert víst að furða þig á, hvers vegna ég leggi ekki handlegginn utan um
þig“, sagði hertogafrúin eftir stundar þögn. „Ástæðan er sú, að ég treysti ekki
vel flamingóanum þínum. Á ég að gera tilraun?“
„Hann bítur kannske“, sagði Lísa varfærnislega. Henni var hreint ekki um
tilraunina gefið.
„Öldungis rétt, bæði flamingóar og sinnep bíta“, sagði hertogafrúin. „Og af
því má læra: Hverjum þykir sinn fugl fagur“.
„Þetta er að því leyti rangt, að sinnep er ekki fugl“, sagði Lísa.
„Þú hefir á réttu að standa, eins og venjulega; en hvað þú ert skýr
stúlka“.
„Það er víst steintegund“, sagði Lísa.
„Vitaskuld“, sagði hertogafrúin. — Hún virtist reiðubúin að fallast á allt,
sem Lísa sagði. „Það er stór sinnepsnáma hérna nálægt“.
„Nei, nú man ég hvað það er — það er grænmeti“, sagði Lísa.
„Þetta er alveg rétt“, sagði hertogafrúin. „Og af því má læra: „Vertu það,
sem þú virðist vera“, eða greinilegar orðað: „Ímyndaðu þér aldrei, að þú sért
öðruvísi en öðrum mundi virðast að þú værir, eða hefðir getað verið, öðruvísi
en það sem þeim mundi hafa virzt vera öðruvísi“.“
„Ég hugsa, að ég skildi þetta betur, ef ég fengi það uppskrifað“, sagði
Lísa mjög kurteislega. „Ég gat ekki alveg fylgzt með því, sem þér sögðuð“.
„Þetta var ekkert á móti því, sem ég gæti sagt, ef ég kærði mig um“, sagði
hertogafrúin ánægð.
„Fyrir alla muni, verið ekki að hafa fyrir að segja neitt, sem er meiri
langloka en þetta“, sagði Lísa.
„Blessuð vertu ekki að tala um fyrirhöfn. Ég gef þér hér með allt, sem ég
hefi sagt hingað til“, sagði hertogafrúin.
„Ekki var þetta dýrkeypt gjöf. Það er svei mér heppni, að maður fær ekki
afmælisgjafir af þessari tegund“, tautaði Lísa, en gætti þess, að hertogafrúin
heyrði það ekki.
„Ertu nú aftur farin að hugsa?“ spurði hertogafrúin.
„Ég hefi leyfi til að hugsa eins og mér sýnist“, sagði Lísa. Hún var nú
orðin hálf-leið á samræðunum.
„Svona álíka mikið leyfi og svín hafa til að fljúga“, sagði hertogafrúin,
„og það má læ —
Lísu til mikillar undrunar steinþagnaði hertogafrúin í miðju
uppáhaldsorði sínu, og Lísa fann, að hún
titraði. Hún leit upp, og sá þá drottninguna standa fyrir framan þær, með
krosslagða handleggi—yglda á brún.
„Það er blíðan, yðar hátign“, sagði hertogafrúin, lágri hvíslandi röddu.
„Ég læt yður nú vita í eitt skipti fyrir öll“, hrópaði drottningin, „að
annað hvort hypjið þér yður strax á burtu, eða þér verðið hálshöggnar. Þér
getið valið um“.
Hertogafrúin var ekki sein á sér og var horfin á sama augnabliki.
„Við skulum halda áfram leiknum“, sagði drottningin við Lísu. Lísa var of
hrædd til þess að malda í móinn og gekk því hægt á eftir drottningunni til
leikvallarins.
Hinir gestirnir höfðu notað sér fjarveru drottningarinnar og hvíldu sig í
skuggum trjánna. En strax og þeir sáu drottninguna, þá flýttu þeir sér að hefja
leikinn að nýju. Drottningin kallaði til þeirra, að ef þeir hefðu ekki hraðan
á, þá yrði það þeirra bani.
Allan tímann meðan á leiknum stóð, átti drottningin í sífelldum erjum og
hrópaði án afláts: „Hálshöggvið hann“ eða „hálshöggvið hana“. Þá, sem voru
dæmdir til dauða, tóku hermennirnir í gæzluvarðhald og gátu þeir vitaskuld ekki
verið bogar á meðan. Eftir um það bil klukkustund voru engir bogar lengur á
vellinum, og allir leikendurnir, nema kóngurinn, drottningin og Lísa, voru dauðadæmdir.
Drottningin var nú orðin lafmóð og hætti leiknum. „Ertu búin að sjá
skjaldbökubróðurinn?“ spurði hún Lísu.
„Nei, ég veit ekki einu sinni hvað það er“, anzaði Lísa.
„Komdu þá, það er bezt að hann segi þér sögu sína“.
Þegar þau voru að leggja af stað, heyrði Lísa, að kóngurinn sagði lágri
röddu við hópinn: „Ykkur er öllum gefnar upp sakir og fyrirgefið“. „Það er
eitthvert vit í þessu“, hugsaði Lísa. Hún hafði verið hálf döpur í bragði yfir
öllum aftökunum, sem drottningin hafði fyrirskipað.
Þau hittu brátt fyrir sér flugskrímsli, sem lá í fastasvefni í sólskininu.
„Rístu á fætur, letiblóðið þitt, og fylgdu þessari ungfrú til
skjaldbökubróðurins“, sagði drottningin. „Ég verð sjálf að snúa við og sjá um
nokkrar aftökur“. Og drottningin strunzaði burt og skildi Lísu eftir eina hjá
flugskrímslinu. Lísu geðjaðist ekki allskostar að útliti dýrsins, en þegar öllu
var á botninn hvolft, þá fannst henni sér ekki hættara hjá því en
drottningarvarginum. Hún var þess vegna róleg og beið.
Flugskrímslið settist upp og néri augun. Síðan aðgætti það drottninguna,
þar til hún var úr augsýn, þá hlakkaði í því. „Þetta er þó kátbroslegt“, sagði
það í hálfum hljóðum.
„Hvað er kátbroslegt?“ spurði Lísa.
„Hún, auðvitað“, anzaði flugskrímslið. „Þetta eru bara grillur í henni.
Þeir taka aldrei neinn af lífi, nei, það gera þeir sannarlega ekki. Komdu nú
með mér!“
Lísa gekk hægt á eftir flugskrímslinu, þótt henni félli hreint ekki vel í
geð að hlýða fyrirskipunum.
Þau höfðu ekki lengi gengið, þegar þau sáu skjaldbökubróðurinn í fjarska,
sitjandi á klöpp. Hann var fjarska einmanalegur og dapurlegur, og þegar þau
komu nær, heyrði Lísa hann stynja raunalega. Hún gat ekki að sér gert, að kenna
í brjósti um hann. „Hvað er það, sem hryggir hann svo mjög?“ spurði hún, og
flugskrímslið svaraði strax:
„Þetta eru bara grillur í honum, hann hefir enga ástæðu til að hryggjast.
Kom þú nú!“
Þau komu nú til skjaldbökubróðurins, og hann leit á þau stórum tárvotum
augum, en sagði ekkert.
„Þessa yngismey hérna langar svo fjarska mikið til að heyra sögu þína“,
sagði flugskrímslið.
„Hún skal fá að heyra hana“, sagði skjaldbökubróðirinn dimmum grafarrómi.
„Setjist bæði niður og segið ekki eitt einasta orð, fyrr en ég hefi lokið máli
mínu“.
Þau settust nú niður og í nokkrar mínútur var dauðaþögn. Lísa fór að velta
því fyrir sér, hvernig skjaldbökubróðirinn myndi nokkru sinni ljúka máli sinu,
ef hann aldrei byrjaði á frásögninni. Hún beð samt þolinmóð.
„Einu sinni var ég almennileg skjaldbaka“, sagði skjaldbökubróðirinn og
stundi þungan. Nú kom aftur löng þögn, sem aðeins var rofin af þungum stunum
skjaldbökubróðurins og hnerrum flugskrímslisins, endrum og eins. Lísa var komin
á fremsta hlunn með að standa upp og segja: „Þakka yður, herra minn, fyrir hina
bráðskemmtilegu og athyglisverðu sögu yðar“, en hún gat ekki varizt þeirri
hugsun, að eitthvað hlyti að koma í viðbót. Hún sat þess vegna kyrr og beið
átekta.
„Þegar við vorum lítil, þá gengum við í skóla úti í sjónum“, hélt
skjaldbökubróðirinn áfram. Honum var nú ofurlítið hægara, þótt hann væri enn
sí-stynjandi. „Kennslukonan var gömul sæskjaldbaka og við kölluðum hana jafnan
landskjaldbökuna“.
„Hvers vegna kölluðuð þið hana landskjaldböku, fyrst hún var það hreint
ekki?“ spurði Lísa.
“Það var einmitt vegna þess, að hún var sæskjaldbaka, annars hefði það
heldur ekkert viðurnefni verið“, sagði skjaldbökubróðirinn gramur.
“Þú ættir að skammast þín fyrir, að spyrja svona heimskulega“, sagði
flugskrímslið. Nú var aftur þögn, og Lísu var orðið órótt.
Að lokum sagði flugskrímslið: „Jæja, haltu áfram kunningi, vertu ekki í
allan dag að þessu“.
Og skjaldbakan hélt áfram: „Eins og ég hefi þegar sagt, þá gengum við í
skóla úti í sjónum, en það virðist svo sem þið trúið þessu ekki“.
„Ég hefi aldrei sagt, að ég tryði því ekki“, greip Lísa fram í.
“Jú, það gerðirðu raunar“, sagði skjaldbökubróðirinn.
„Haltu þér saman“, sagði flugskrímslið við Lísu, og áfram var haldið með
söguna:
„Við fengum ágætis uppeldi — já, við fórum meira að segja í skólann á
hverjum degi”.
„Ég hefi líka gengið í skóla, svo að þú þarft ekki að vera neitt montinn af
því“, sagði Lísa.
„Og varstu líka í aukatímum?“ spurði skjaldbökubróðirinn tortryggnislega.
„Já, ég lærði að spila á píanó, og svo var ég í frönskutímum“, anzaði Lísa.
„Og þvott, lærðirðu líka þvott?“
“Nei, þvott lærðum við ekki, það veit hamingjan“, sagði Lísa móðguð.
„Þá hefir þetta ekki verið góður skóli“, sagði skjaldbökubróðirinn, glaður í
bragði. „Við þurfum að greiða aukalega fyrir píanóakennslu, frönsku og þvott“.
„Ekki hefir þú samt mikla þörf á slíku, þar sem þú býrð á hafsbotninum“,
sagði Lísa.
“Nei, ég hafði heldur ekki efni á því — ég tók aðeins þátt í
skyldunámsgreinunum“, sagði skjaldbökubróðirinn.
„Og hverjar voru þær?“ spurði Lísa.
„Hneigingar og beygingar auðvitað fyrst og fremst, og síðan hinar ýmsu
greinar stórfræði og smáfræði, samlagning og bládráttur og svo ljókkun“, sagði
skjaldbökubróðirinn.
„Ég hefi aldrei heyrt minnst á „ljókkun“, dirfðist Lísa að segja.
Flugskrímslið leit upp undrandi. „Hefirðu aldrei heyrt minnst á ljókkun? Þú
veizt þó hvað fegrun er, vænti ég!“
„Já,“ anzaði Lísa hikandi, „það er að gera eitthvað fallegra eða snotrara“.
„Nú, jæja þá, og ef þú veizt ekki hvað er að ljókka, þá ertu bjáni“, sagði
flugskrímslið.
Lísu þótti ekki árennilegt að koma með fleiri spurningar þessu viðvíkjandi,
og hún sagði þess vegna við skjaldbökubróðurinn: „Hvað lærðuð þið fleira?“
„Það var nú ýmislegt. Til dæmis lærðum við að draga seiminn, teygja úr
okkur og geispa. Gamall áll kenndi okkur þetta“.
„Hvernig var nú það?“ spurði Lísa.
„Ég get ekki sýnt þér það, því að ég er búinn að gleyma því að mestu, og
flugskrímslið lærði aldrei þessar námsgreinar“, sagði skjaldbökubróðirinn.
„Ég átti of annríkt“, sagði flugskrímslið. „En samt lærði ég sitthvað, sem
ekki var síður mikilvægt. Kennarinn var stórfrægur, en eldgamall krabbi“.
„Hann kenndi mér ekki“ sagði skjaldbökubróðirinn og stundi. „Það er sagt,
að hann hafi kennt bæði hlátur og grát“.
„Rétt er það, öldungis rétt“, sagði flugskrímslið og stundi líka. Bæði
dýrin voru nú fjarska raunamædd.
„Hvað höfðuð þið margar kennslustundir á dag?“ spurði Lísa. Hún vildi
gjarnan beina samtalinu í aðra átt.
„Tíu fyrsta daginn, níu næsta dag, o.s.frv.“, sagði skjaldbökubróðirinn.
„Þetta hefir verið skrítinn skóli“, sagði Lísa. Hún hugsaði málið um stund
og sagði svo: „Ellefti dagurinn hlýtur þá að hafa verið helgidagur?“
„Já vitaskuld, ef það hefir þá ekki verið virkur dagur“, anzaði
skjaldbökubróðirinn.
„Og hvað gerðuð þið svo tólfta daginn?“
„Þetta nægir nú, hvað kennslustundum viðvíkur“, sagði flugskrímslið mjög
ákveðinni röddu. Segðu henni heldur
eitthvað af leikjunum ykkar“.
10. þáttur.
Dans krabbanna.
Skjaldbökubróðirinn andvarpaði nú mæðulega og þurrkaði sér um augun með
hramminum. Hann leit á Lísu og reyndi að segja eitthvað, en gat engu orði upp
komið fyrir stunum og andvörpum. „Það er engu líkara en að bein standi í
honum“, sagði flugskrímslið og fór að hrista hann allan til og slá hann á
bakið. Að lokum fékk þó skjaldbökubróðir málið aftur. Hann hélt áfram sögu
sinni, en á meðan streymdu tárin niður kinnar hans.
„Þú hefir víst ekki verið lengi neðansjávar — “ („Nei, það hefi ég ekki
verið“, anzaði Lísa) — „og þú hefir þess vegna aldrei kynnzt krabba —“ (Lísa
byrjaði að segja: „Ég hefi einu sinni smakkað —“ en hún áttaði sig og sagði
aðeins: „Nei, aldrei“) — „og þá veiztu ekki hvað krabbadansinn er unaðslegur?“
„Nei, það veit ég ekki. Hvers konar dans er það?“ spurði Lísa.
„Það skal ég segja þér“, sagði flugskrímslið.
„Fyrst er mynduð röð í fjörunni —“
„Tvær raðir!“ greip skjaldbökubróðir fram í. „Selir, skjaldbökur, laxar
o.s.frv. — og svo þegar öllum marglyttum er rutt úr vegi —“
„Og það tekur venjulega talsverðan tíma“, greip flugskrímslið fram í —“
„Þá er gengið áfram, tvö skref“,
„Sérhver leiðir sinn krabba“, kallaði flugskrímslið.
„Já, vitaskuld“, sagði skjaldbökubróðir, „sem sagt tvö skref áfram og eitt
til hægri“.
„Skipt um krabba og aftur á bak í sömu röð“, sagði flugskrímslið.
„Síðan kastar maður —“, hélt skjaldbökubróðir áfram.
„Kröbbunum“, öskraði flugskrímslið og tók stökk upp í loftið.
„Eins langt út á sjó og maður dregur“, kallaði skjaldbökubróðir.
„Og syndir svo eftir þeim“, æpti flugskrímslið.
„Steypir sér kollhnís í sjónum“, hrópaði skjaldbökubróðir og æddi
tryllingslega um.
„Skiptir aftur um krabba“, öskraði flugskrímslið, eins hátt og það gat.
„Í land aftur, — þetta var nú fyrsta umferðin“, sagði skjaldbökubróðir og
lækkaði skyndilega
röddina. Dýrin höfðu hlaupið og skoppað um, eins og þau væru tryllt, en nú
settust þau niður, alvarleg og róleg og horfðu á Lísu.
„Þetta hlýtur að vera skemmtilegur dans“, sagði Lísa feimnislega.
„Langar þig til að sjá hann?“ spurði skjaldbökubróðir.
„Já, fjarska mikið“, anzaði Lísa.
„Jæja, við skulum þá taka fyrstu umferðina, við getum vel gert það án
krabba“, sagði skjaldbökubróðir við flugskrímslið. „Þú syngur þá undir, ég er
búinn að gleyma vísunum“, sagði flugskrímslið.
Nú fóru bæði dýrin að dansa hátíðlega kringum Lísu og öðru hvoru stigu þau
ofan á tær hennar. Og skjaldbökubróðir söng hægt og alvarlega:
Flýt þér snigill, selur sagði.
Sérðu ei pöddu á augabragði?
Sjáðu pöddurnar og kvikan krabbafans,
kannske bjóða þeir okkur í dans.
Viltu, máttu, viltu, máttu, við mig stíga dans?
Viltu, máttu, viltu máttu, stíga lítinn dans?
Þú skilur víst hve indælt er,
í æstri gleði að dansa um sjóinn?
Snigill sagði: Nei, fjandinn fjarri mér,
ég fer að sniglast út í móinn.
Vil ei, má ei, vil ei, má ei, við þig stiga dans,
vil ei, má ei, vil ei, má ei, stiga slíkan dans.
„Þakka ykkur kærlega fyrir; þetta var skemmtilegur dans“, sagði Lísa.
“Segðu okkur nú frá einhverju, sem fyrir þig hefir komið“, sagði
skjaldbökubróðir.
„Ég segi þá frá deginum í dag; það þýðir ekki að segja frá gærdeginum, því
að þá var ég allt önnur manneskja“, sagði Lísa.
„Skýrðu þetta nánar“, sagði skjaldbökubróðir.
„Nei, nei, fyrst viðburðina, skýringar eru svo fjarska leiðinlegar“, sagði
flugskrímslið óþolinmótt.
Lísa sagði nú ævintýri sitt, frá þeirri stund, er hún sá hvítu kanínuna.
Hún var dálítið feimin og vandræðaleg í fyrstu. Dýrin sátu sitt hvoru megin við
hana, með galopna munna og augu. Þegar leið á frásögnina jókst hugrekki hennar.
Áheyrendur hennar voru algjörlega kyrrir og rólegir, þangað til hún sagði þeim
frá kálorminum og viðtali sínu við hann.
Þá stundi skjaldbökubróðirinn þungan, og sagði: „Þetta er mjög undarlegt“.
„Það er vægast sagt, stórfurðulegt“, sagði flugskrímslið.
Lísa ætlaði að fara að halda áfram sögu sinni, þegar heyrðist kallað í
fjarska: „Rétturinn er settur“.
„Af stað, af stað“, hrópaði flugskrímslið, tók Lísu við hönd sér og dró
hana á eftir sér, án frekari málalenginga.
„Hvaða réttur er þetta?“ spurði Lísa á hlaupunum, en flugskrímslið svaraði
aðeins: „Af stað, af stað“.
Síðast þegar sást til skjaldbökubróður, stóð hann ennþá í fjörunni. Tárin
streymdu niður kinnar hans og runnu í stríðum straumi til sjávar.
[Mynd: Humar (viðkomandi hluti 10. þáttar er ekki hluti af þýðingunni).] |
11. þáttur.
Hver stal kökunum?
Þegar þau komu, sátu Hjartakóngurinn og Hjartadrottningin í hásæti sínu. Í kringum þau var stór hópur allskonar
dýra, ásamt öllum spilunum. — Fyrir framan konungshjónin stóð Hjartagosinn í
hlekkjum og gætti hans hermaður til hvorrar handar. Rétt við hlið kóngsins var
hvíta kanínan, og hafði hún lúður í annarri hendi og stórt skjal í hinni. Í
miðjum dómsalnum var borð og á því stóð kökudiskur. Kökurnar voru svo
girnilegar ásýndum, að Lísu dauðlangaði í. „Vonandi kveða þau bráðlega upp
dóminn og snúa sér að veitingunum“, hugsaði hún. En það virtist ekki mikið
útlit fyrir þetta, og hún fór þess vegna að virða fyrir sér það, sem fyrir
augun bar.
Lísa hafði aldrei verið í dómsal áður, en hún hafði lesið um málssóknir í
blöðunum.
Dómarinn var hér sjálfur kóngurinn. Hann hafði hárkollu á höfðinu og kórónu
ofan á henni. Hann virtist ekki kunna neitt vel við sig, og hárkollan fór honum
illa.
“Og þetta er kviðdómarinn og þessi tólf dýr þarna eru kviðdómarar“, sagði
Lísa. Hún endurtók þessi orð nokkrum sinnum, stórhrifin af sjálfri sér fyrir
það, hvað hún var fróð.
Kviðdómararnir voru í óða önn að skrifa eitthvað á spjöld. „Hvað eru þeir
að gera? Þeir þurfa þó varla að skrifa neitt upp, áður en yfirheyrzlan byrjar?“
sagði Lísa við flugskrímslið
Þeir eru að skrifa nöfnin sín, ef ske kynni, að þeir væru búnir að gleyma
þeim, að réttarhöldunum loknum“, hvíslaði flugskrímslið.
„Dæmalaus fífl“, sagði Lísa hneyksluð, en hún þagnaði í miðri setningu, því
að nú hrópaði hvíta kanínan: „Þögn í réttinum“.
Kóngurinn hagræddi gleraugunum vandlega á nefi sinu og leit spekingslega um
salinn.
Lísa sá yfir axlir kviðdómaranna, að þeir voru að skrifa á spjöldin sin:
dæmalaus fífl“. Og hún veitti því einnig athygli, að einn þeirra vissi ekki,
hvernig átti að stafa þetta, og varð að leita ráða hjá sessunaut sínum. — „Spjöldin verða skemmtileg útlits
við lok málsóknarinnar, eða hitt þó heldur“, hugsaði Lísa með sér.
Þá ískraði í griffli eins kviðdómarans. Lísu fannst hljóðið óþægilegt, og
hún læddist þess vegna á bak við kviðdómarann og hrifsaði til sín griffilinn.
Hún var svo fljót að því að kviðdómarinn (það var eðlan Nonni litli) gat hreint
ekki áttað sig á, hvað orðið hafði af grifflinum. Hann neyddist því að skrifa
með fingrinum, það sem eftir var dagsins. En það var vitanlega til lítils
gagns, því að spjaldið var jafnautt eftir sem áður.
„Kallari, lestu upp ákæruna“, sagði konungurinn. Hvíta kanínan blés þrisvar
í lúðurinn, breiddi úr skjalinu og las það, sem hér fer á eftir:
Bakaði drottning beztu kökur,
bjartan sumardag.
Gosinn stal þeim, át þær allar
undir sólarlag.
„Berið fram úrskurð yðar“, sagði kóngurinn við kviðdóminn.
„Ekki strax, ekki strax“, flýtti hvíta kanínan sér að grípa fram í. „Það
þarf ýmislegt annað að gera fyrst“.
„Leiðið fyrsta vitnið inn“, sagði kóngurinn.
Hvíta kanínan blés nú aftur þrisvar í lúður sinn og kallaði: „Fyrsta
vitni!“
Hattarinn var fyrsta vitnið. Hann gekk inn í dómsalinn með kaffibolla í
annarri hendi og brauðsneið í hinni. „Ég bið yðar hátign að afsaka, að ég hefi
þetta meðferðis, en svo er mál með vexti, að ég hafði ekki alveg lokið við að
drekka eftirmiðdagskaffið mitt, þegar gert var boð eftir mér“.
„Þú hefðir átt að hafa lokið því“, sagði kóngurinn. „Hvenær byrjaðir þú?“
Hattarinn leit á hérann, sem hafði komið á eftir honum inn í réttarsalinn,
ásamt heslimúsinni. „Ég held, að það hafi verið þann fjórtánda marz“, sagði
hann.
„Þann fimmtánda“, sagði hérinn.
„Þann sextánda“, sagði heslimúsin.
„Bókið þetta“, sagði kóngurinn við kviðdómarana. Þeir skrifuðu öll
dagatölin á spjöldin sin, lögðu þau svo saman og breyttu þeim í krónur og aura.
“Taktu ofan hattinn þinn“, sagði kóngurinn við hattarann.
“Ég á ekki hattinn“, sagði hattarinn.
„Nú, já, hann er þá stolinn“, sagði kóngur og sneri sér að kviðdómurunum,
sem skrifuðu þetta hjá sér.
„Ég hefi þá til sölu; sjálfur á ég engan hatt; ég er sem sé hattari“.
Drottningin setti nú upp gleraugu og tók að horfa hvössum augum á
hattarann. Hann fölnaði upp og varð óstyrkur. —
„Segðu nú allt af létta, og ef þú ert með einhverjar vífilengjur, þá
verðurðu tekinn af lífi umsvifalaust“, sagði kóngurinn.
Þetta virtist ekki beint auka hugrekki hattarans. Hann stóð þarna og
tvísté, og í fátinu, sem á honum var, beit hann stórt stykki úr kaffibollanum,
í staðinn fyrir af brauðsneiðinni.
Lísa var nú orðin eitthvað svo undarleg, og í fyrstu skildi hún ekki,
hverju þetta sætti. En skyndilega varð henni það ljóst, að hún var farin að
stækka á ný. Hún var að hugsa um að hypja sig burtu, en svo ákvað hún, að vera
kyrr á meðan húsrúmið leyfði.
„Ekki þrengja svona að mér; ég get tæplega andað“, sagði heslimúsin, sem
sat við hlið Lísu.
„Ég get ekki að því gert; ég er að stækka“, sagði Lísa afsakandi.
„Þú hefir ekkert leyfi til að stækka hér“, sagði heslimúsin.
„Vertu ekki að þessu þvaðri, þú stækkar sjálf“, sagði Lísa.
„Já, að vísu; ég stækka í hófi, en ekki svona óhemjulega“, sagði
heslimúsin. Hún reis á fætur og gekk yfir í hinn enda salarins.
Allan þennan tíma hafði drottningin starað án afláts á hattarann, og í þann
mund, sem heslimúsin gekk yfir salinn, sagði hún við einn af réttarþjónunum:
„Látið mig fá skrá yfir söngvarana á síðustu söngskemmtun“. Þegar hattarinn
heyrði þetta, þá tók hann að skjálfa svo ákaft, að skórnir hristust af fótum
hans.
„Segðu mér allt af létta, ellegar þú verður líflátinn“, sagði kóngurinn
aftur. —
„Ég er fátækur maður, yðar hátign, og ég drekk kaffi, yðar hátign, og borða
smurt brauð eins og forfeður mínir gerðu mann fram af manni. En nú eru
brauðsneiðarnar alltaf að verða þynnri og þynnri og kaffið ónýtara, yðar
hátign, því að, eins og hérinn sagði, þá —“
„Ég hefi aldrei sagt það“, skaut hérinn inn í.
„Jú, það hefirðu gert“, sagði hattarinn.
„Ég neita því“, sagði hérinn.
„Hann neitar, sleppum því þá“, sagði kóngur.
„Jæja — hvort sem nú hérinn sagði það eða ekki, þá er það víst, að
heslimúsin sagði — “ Hattarinn gaut augunum til heslimúsarinnar, sem steinsvaf
og gat þess vegna ekki mótmælt. „Síðan smurði ég ofurlítið þykkara á brauðið
mitt — “ hélt hattarinn áfram.
„En hvað var það, sem heslimúsin sagði?“ spurði einn af kviðdómurunum.
„Það man ég hreint ekki“, sagði hattarinn.
„Þú verður að muna það, ellegar þú verður líflátinn“, sagði kóngur.
Veslings hattarinn missti kaffibollann og brauðsneiðina á gólfið. Hann féll
nú á kné fyrir framan kónginn og sagði: „Ég er fátæklingur, eins og þér vitið,
yðar hátign“.
„Þú ert ræfill!“ mælti kóngur. Nú fór annar villigrísinn að klappa í ákafa,
svo að hasta varð á hann.
„Líf eins hattara er ekki mikils virði, hann hverfur í fjöldann“, mælti
kóngur.
„Já, leyfið mér að hverfa út í fjöldann. En ef það á að lífláta mig, þá vil
ég gjarnan mega ljúka við kaffið mitt og brauðsneiðina áður“, sagði hattarinn.
„Hypjaðu þig þá í burt“, sagði kóngurinn byrstur. Og hattarinn þaut í burt
eins og örskot, og gaf sér ekki einu sinni tíma til að fara í skóna.
„Hálshöggvið hann fyrir utan“, sagði drottningin við tvo af hermönnum
sinum. En hattarinn var horfinn, þegar þeir komu út.
„Leiðið fram næsta vitni“, sagði kóngurinn.
Næsta vitni var eldabuska hertogafrúarinnar. Hún hafði piparbauk meðferðis
og Lísa vissi strax hver var á ferð, vegna þess að þegar dyrnar voru opnaðar,
fóru allir að hnerra, sem stóðu þar nálægt.
“Láttu okkur heyra, hvað þú hefir fram að færa þér til málsbóta“, sagði
kóngur.
“Nei“, anzaði eldabuskan, stutt í spuna.
Kóngur leit vandræðalega til hvítu kanínunnar, og hún hvíslaði að honum:
„Þetta vitni verður yðar hátign að yfirheyra rækilega“.
„Það verður víst svo að vera“, sagði kóngur, dapur í bragði. Hann
krosslagði handleggina, horfði hvasst á eldabuskuna og sagði „úr hverju eru
kökur búnar til?“
„Aðallega úr pipar“, anzaði eldabuskan.
„Úr sýrópi“, sagði syfjuð rödd að baki hennar.
„Grípið heslimúsina“, öskraði drottningin.
„Hálshöggvið heslimúsina! Rekið heslimúsina út úr dómsalnum! Berjið hana;
klípið hana! Klippið af henni veiðihárin!“
Réttarsalurinn var nú allur í uppnámi um stund, á meðan verið var að drasla
út heslimúsinni. Þegar því var lokið, og kyrrð var komin á að nýju, var
eldabuskan á bak og brott.
„Það gerir ekkert til“, sagði kóngur, guðslifandi feginn. — „Næsta vitni!“
Við drottningu sína sagði hann: „Þú verður að yfirheyra þetta vitni rækilega,
elskan mín; ég hefi óþolandi höfuðverk“.
Á meðan hvíta kanínan var að athuga listann yfir vitnin, hafði Lísa ekki af
henni augun. Henni lék mikil forvitni á að vita, hver yrði kallaður fyrir næst
— „því að ennþá hefir ekkert sannazt í málinu“, sagði hún við sjálfa sig. Þú
getur gert þér í hugarlund hvað hún varð hissa, þegar hvíta kanínan hrópaði með
sinni skræku og skerandi rödd: „Lísa“.
12. þáttur.
Lísa sem vitni.
“Hér er ég“, kallaði Lísa. Hún spratt á fætur og í fátinu, sem á henni var,
steingleymdi hún, hvað hún var orðin stór, og velti um koll stúkunni, sem
kviðdómararnir voru í. Þeir lágu nú þarna á gólfinu, spriklandi í einni hrúgu.
Þeir minntu Lísu á gullfiska, því að hún hafði velt um koll gullfiskaskál í
síðastliðinni viku.
„Ó, fyrirgefið!“ sagði hún, mjög leið. Hún flýtti sér að tína saman
kviðdómarana og setja þá í stúkuna aftur. Hún hafði það óljóst á
tilfinningunni, að þeir mundu sálast (eins og gullfiskarnir), ef þetta yrði
ekki gert strax.
„Yfirheyrzlan getur ekki haldið áfram fyrr en allir kviðdómarar eru komnir
í sæti sín“, sagði kóngur alvörugefinn. „Allir“, endurtók hann með áherzlu og
horfði hvasst á Lísu.
Lísa leit á kviðdómarana og sá, að hún hafði látið höfuð Nonna eðlu snúa
niður. Vesalingurinn var alveg ósjálfbjarga, og gat ekkert hreyft nema halann.
Lísa sneri honum við, „þótt það raunar skipti engu máli, hvor endinn á Nonna
snýr upp“, sagði hún við sjálfa sig.
Þegar kviðdómararnir höfðu náð sér eftir áfallið og geðshræringuna og
fengið aftur spjöld sin og griffla, þá fóru þeir að gera skýrslu um þetta
hvumleiða óhapp; allir, nema Nonni. Þetta hafði fengið svo á hann, að hann var
til alls annars ófær, en að sitja með opinn munninn og góna upp í loftið.
“Hvað veizt þú um þetta mál?“ spurði kóngurinn Lísu.
„Ekkert”, anzaði Lísa.
„Alls ekkert?“ spurði kóngur.
„Alls ekkert“, sagði Lísa.
„Þetta er mjög þýðingarmikið“, sagði kóngur og sneri sér að kviðdómurunum.
Þeir voru í þann veginn að skrifa þetta á spjöldin sín, þegar hvíta kanínan
sagði: „Yðar hátign vildi auðvitað sagt hafa: þýðingarlítið“. Kanínan sagði
þetta í virðulegum tón, en gretti sig um leið framan í kónginn.
„Þýðingarlítið, ætlaði ég auðvitað að segja“, mælti kóngur. Nú fór hann að
staglast á orðunum: Þýðingarmikið, þýðingarlítið, þýðingarmikið,
þýðingarlítið“, eins og hann væri að athuga, hvort orðanna hljómaði betur.
Sumir kviðdómararnir skrifuðu hjá sér „þýðingarmikið“ og aðrir
„þýðingarlítið“. Lísa stóð svo nálægt þeim, að hún gat séð hvað þeir skrifuðu.
„En sama er mér“, hugsaði hún.
Kóngurinn páraði nú eitthvað í vasabókina sína og hrópaði svo: „Þögn í
réttarsalnum!“ Síðan fór hann að lesa upp úr bókinni: „42. grein: Allir sem eru
óleyfilega háir, gangi út úr réttarsalnum“.
Allir litu á Lísu.
„Ég er ekki óleyfilega há“, sagði hún.
„Jú, það ertu“, anzaði kóngur.
„Næstum þrjár álnir á lengd“, sagði drottningin.
„Jæja, hvað sem því líður, þá verð ég kyrr“, sagði Lísa. „Auk þess eru
þetta engin lagafyrirmæli. Þú varst sjálfur að skálda þau rétt áðan“.
„Þetta eru elztu lögin í bókinni“, sagði kóngur.
„Þá ættu þau að vera 1. grein“, sagði Lísa.
Kóngur fölnaði og lokaði vasabókinni í skyndi. „Segið nú, hvað þér álítið“,
sagði hann við kviðdómarana, lágri, skjálfandi röddu.
„Andartak, yðar hátign, framburðinum er ekki alveg lokið ennþá“, sagði
hvíta kanínan og spratt á fætur. „Þetta bréf fannst núna rétt í þessu“.
„Hvað stendur í því?“ spurði drottningin.
„Ég hefi ekki opnað það ennþá, en það virðist vera bréf, sem fanginn hefir
skrifað einhverjum“, sagði hvíta kanínan.
„Já, það hlýtur að hafa verið skrifað einhverjum, nema þá að það hafi engum
verið skrifað. En slíkt er ekki algengt“, sagði kóngur.
„Hvaða utanáskrift er á bréfinu?“ spurði einn af kviðdómurunum.
„Það er engin utanáskrift á því“, sagði hvíta kanínan. Hún opnaði bréfið.
„Þegar til kemur, þá er þetta ekkert bréf, heldur aðeins kvæði“.
„Er það skrifað með hönd fangans?“ spurði annar kviðdómari.
„Nei, og það er það, sem gerir málið flókið“, svaraði hvíta kanínan.
(Kviðdómararnir urðu mjög forviða á svip.)
„Hann hlýtur að hafa stælt hönd einhvers annars“, sagði kóngurinn.
(Kviðdómurunum létti sýnilega)
„Yðar hátign!“ sagði nú hjartagosinn. „Ég hefi ekki skrifað bréfið og það
get ég sýnt og sannað, með því að ekkert nafn stendur undir því“.
„Hafir þú ekki skrifað undir, þá er það sízt til þess að bæta málstað þinn.
Þér hlýtur að hafa gengið illt eitt til, ella mundir þú hafa skrifað nafnið
þitt undir sem heiðvirður maður“, sagði kóngur.
Þetta kom af stað miklu lófaklappi, enda var þetta það skynsamlegasta, sem
kóngurinn hafði sagt þennan daginn.
„Þetta sannar sök hans“, sagði drottningin.
„Það sannar alls ekkert“, sagði Lísa. „Þið vitið ekki einu sinni, um hvað
kvæðið fjallar“.
„Lestu það”, sagði kóngur.
Hvíta kanínan setti upp gleraugun og sagði: „Yðar hátign hvar á ég að byrja
lesturinn?”
„Byrjaðu á byrjuninni”, sagði kóngur alvarlega, „og haltu áfram þangað til
þú kemur að endinum. Stanzaðu þá!”
Þannig hljóðaði kvæðið:
Hjartadrottning bjó til brauð
einn blíðan sumardag,
og það var sjálegt sætabrauð
með sómasamlegt lag.
Hjartadrottning hugul taldi
hópinn næsta dag, —
þrettán voru; þau hún faldi, —
þekkti sjálf sinn hag.
Hjartadrottning horfði' á staflann
hnuggin þriðja dag;
tólf þau voru, — einhver aflann
át með kænsku-brag.
Hjartadrottning! Hjaðnar posi, —
huldi þjófurinn,
hann er ekki hjartagosi,
heldur kóngurinn!
„Þetta er í sannleika sagt það mikilvægasta, sem fram hefir komið í
málinu”, sagði kóngur sakleysislega. „Nú er bezt að kviðdómararnir —“.
„Já, nú hafið þið öll heyrt, hver það var, sem stal kökunum”, sagði Lísa.
Hún hafði stækkað svo ákaft síðustu mínúturnar, að hún var ekki lengur vitund
hrædd við kónginn. „Það er augljóst, að Hjartagosinn er saklaus“.
„Sé það augljóst, þá sparar það okkur mikið erfiði. Við þurfum þá ekki að
brjóta heilann um málið frekar”, sagði kóngur.
„En ætlið þið þá að láta rétta þjófinn sleppa?“ sagði Lísa.
„Þegiðu”, hrópaði drottningin, eldrauð af reiði.
„Nei, ég þegi ekki“, sagði Lísa.
Hálshöggvið hana”, öskraði drottningin, froðufellandi af bræði, en enginn
hreyfði hönd né fót.
Lísa var nú orðin fjarska stór og sagði: „Hvaða mark er á ykkur takandi?
Þið eruð bara spil!“
Við þessi orð hófust öll spilin upp í loftið og steyptust yfir Lísu. Hún
rak upp óp og reyndi að banda þeim frá sér. En þá sá hún að hún lá á bekknum
með höfuðið í kjöltu systur sinnar. Systir hennar var að taka burt laufblöð,
sem höfðu fallið af trjánum á andlit hennar. „Vaknaðu nú, Lísa mín”, sagði hún.
„En hvað þú hefir sofið lengi“.
„Mig dreymdi svo undarlega”, sagði Lísa. Og hún sagði systur sinni öll
skrítnu æfintýrin, sem hún hafði ratað í, og þú hefir nú verið að lesa. Þegar
hún hafði lokið frásögn sinni, þá kyssti systir hennar hana og sagði: „Þetta
var einkennilegur draumur, Lísa mín. „En hlauptu nú inn og drekktu mjólkina
þína, það er svo framorðið“.
Lísa hljóp nú af stað og á leiðinni var hún að hugsa um skrítna drauminn
sinn.
Sögulok.
Þegar Lísa var farin, sat systir hennar kyrr um stund og horfði á
sólsetrið. Hún var að hugsa um Lísu og dásamlegu æfintýrin hennar, þangað til
hana sjálfa var líka farið að dreyma.
Fyrst dreymdi hana Lísu litlu. Hún sá hana með litlu handleggina á hné sér
skotra augunum til systur sinnar. Hún gat óljóst greint rödd hennar og horfði
með aðdáun á, hvernig Lísa sveiflaði til höfðinu, svo hárlokkarnir færu ekki i
augun. Systirin sat þarna í leiðslu og hlustaði. Skyndilega varð allt lifandi í
kringum hana og krökkt af hinum undarlegu verum úr draumi Lísu.
Það skrjáfaði í grasinu, þegar hvíta kanínan skauzt framhjá, svaml
músarinnar heyrðist í tárapollinum; hún gat greint hið spaugilega samtal
hattarins og hérans við hina endalausu kaffidrykkju. Drottningin fyrirskipaði
líflát gesta sinna, grís-barnið hnerraði á hnjám hertogafrúarinnar; hróp
flugskrímslisins; andvörp veslings skjaldbökubróður og ískrið í griffli
eðlunnar: Allt þetta barst ósjálfrátt inn í vitund systur Lísu.
Þannig sat hún með augun lokuð og ímyndaði sér hálfvegis, að hún væri í
Undralandinu. Hún vissi samt, að hún þyrfti ekki annað en að opna augun aftur,
til þess að draumurinn breyttist í gráan hversdagsleika.
Að síðustu gerði hún sér litlu systur sína í hugarlund sem fullvaxna konu.
Hún myndi varðveita barnsins ástúðlega og óbrotna hjartalag og ef til vill
myndi hún segja börnum sínum dásamlegu æfintýrin, sem hún hafði ratað í á
Undralandinu. Hún myndi þá fá hlutdeild í gleði og áhyggjum barnanna og minnast
með söknuði eigin bernsku og farsælla sumardaga.