Samstag, 19. April 2008

Smjörklípa

Smjörklípur, smjörklípuaðferð ... er það eitthvað ofaná brauð?

Nei, ofaná kött reyndar. Hugtakið smjörklípa í merkingunni að ófrægja andstæðinga sína til þess að komast hjá því að takast á um málefni, er víst komið frá Davíð Oddssyni og móður hans eða frænku:
"[...] Davíð hafði í sjónvarpsviðtali lýst því að móðir hans hefði notað þá aðferð þegar kisan á heimilinu lét ófriðlega að að klína á hana smjörklípu og hafi kötturinn þá orðið svo upptekinn að hreinsa sig að ekki hefði annað komist að hjá honum og friður komist á meðan á hreinsuninni stóð sem gat tekið býsna langan tíma. Þetta notaði Davíð svo í yfirfærðri merkingu um það að þegar menn lentu í vondri stöðu þá klíndu þeir einhverju á andstæðinginn til að gera hann upptekinn við að verja sig."

(Gunnlaugur.annall.is útskýrir orðið smjörklípa á vefsíðunni GudniMar.annall.is 7. nóvember 2007.)
Samkvæmt bloggsíðu Ágústs Ólafar alþingismanns mun Davíð við eitthvert tilefnið hafa upplýst þjóðina "um að hann hefði haft sérstakt dálæti á [smjörklípuaðferðinni] í forsætisráðherratíð sinni. Þá dunda menn sér við eitthvað annað og umræðan fer aðeins af sporinu."


Deglupenninn Sigríður Dögg lýsti því 23. október 2006, stuttu eftir viðtalið, hvernig Davíð kynnti hugtakið til sögu:
"Þann 3. september síðastliðinn lýsti fyrrverandi stjórnmálaleiðtogi nokkur stoltur í bragði fyrir þáttastjórnanda aðferð sem hann hafði beitt í gegnum tíðina til að leika á pólitíska andstæðinga sína. Aðferðina lærði fyrrverandi stjórnmálaleiðtoginn af frænku sinni sem hafði tjáð honum hvernig losna ætti við læti í kettinum. Lét hún þá smjörklípu í feld kattarins sem beindi eftir það allri athygli sinni að því að sleikja smjörið úr feldinum. Þessari "smjörklípuaðferð" sagðist fyrrverandi stjórnmálaleiðtoginn hafa beitt til að beina athygli pólitískra andstæðinga sinna frá hverju því sem þurfti það sinnið."


Í Fréttablaðinu 8 febrúar 2007 gerir Þorvaldur Gylfason prófessor því hins vegar skóna að í raun sé aðeins um heimfæringu Davíðs að ræða á hugtakinu smear tactics.
"Það mun þó vera einsdæmi í stjórnmálasögu heimsins, að stjórnmálaforingi, sem beitir slíkum ,,smear tactics“, hreyki sér af því háttalagi á opinberum vettvangi og leggi jafnvel á sig að þýða orðasambandið yfir á móðurmál sitt (smjörklípuaðferð). Það má hann eiga, að þýðingin er góð og lýsandi."


Nokkuð er til í því en skv. ensku Wikipedia-greininni um smjörklípuherferðir (í dag) eru smjörklípur
"effective in diverting attention away from the matter in question and onto the individual or group. The target of the smear is typically forced to defend his reputation rather than focus on the previous issue."

Þjóðverjar segja gjarnan Schmutzkampagne, en bæði í ensku og þýsku er fremur átt við að smyrja skít heldur en smjöri (og ég er ekki viss um að kettir séu hluti af myndmálinu í ensku og þýsku myndlíkingunum).

Á hinni íslensku Wikipedíu fær smjörklípuaðferðin stutta umfjöllun og segir þar að hugtakið sé tengd málshættinum  „svo skal böl bæta að benda á annað verra“. Taka má undir það.

Nú þarf bara einhver að þýða enska hugtakið FUD campaign (fear, uncertainty, doubt), aðferð sem notuð er til þess að afvegleiða og hræða fólk með hálfsannleik og illa ígrunduðum spádómum.

1 Kommentar:

arnid65 hat gesagt…

Sæll
Rakst á þessaa færslu í Google leit.
Ég held að smjörklípa í merkingu Davíðs sé ekki "að ata andstæðingin auri" heldur frekar að afvegaleiða hann með því að beina umræðuna frá aðalatriðinu og yfir í aukaatriði eða jafnvel hluti sem koma málinu ekki við. Davíð þekkti sína vinstri menn og vissi að með því að ýta á viðkvæmu takkana fóru þeir út af sporinu og gleymdu aðalatriðinu. Klassíska aðferðin í íslenskri umræðu var að fara að tala um málfræðina eða íslenskuna þegar mikilvægt mál var í umræðunni og þá fór allt upp í loft.
Þetta er skylt því sem Halldór Laxnes sagði um íslendinga að þeir rifust ævinlega um aukaatriðin en forðuðust að ræða aðalatriðin í lengstu lög.
kveðja
Árni